Ómar bjargaði stigi fyrir Keflavík
Keflvíkingar geta þakkað Ómari Jóhannssyni, markverði sínum fyrir stigið sem þeir fegnu út úr leik sínum gegn Fylki í Landsbankadeild karla í dag. Leiknum lauk 1-1, en Ómar varði vítaspyrnu á lokamínútum leiksins.
Leikurinn fór fram á Keflavíkurvelli við afar erfiðar aðstæður þar sem fyrsta haustlægðin kallaði rok og rigningu yfir leikmenn. Bæði lið reyndu hins vegar að gera gott úr hlutunum og gerðu sitt besta til að leika góðan fótbolta.
Skarð var fyrir skildi hjá Keflavík þar sem Símun Samúelsen og Baldur Sigurðsson voru í banni vegna gulra spjalda og Hólmar Rúnarsson er haldin utan í atvinnumennsku.
Heimamenn voru ífrið sterkari í upphafi og áttu Fylkismenn erfitt uppdráttar í sókninni. Guðmundur Steinarsson og Guðjón Árni Antoníusson áttu skot að marki Fylkis sem lítil ógn var af, en það voru gestirnir sem voru fyrri til að skora.
Eftir hornspyrnu Fylkismanna á 23. mínútu barst knötturinn á Peter Gravesen sem sendi stutta fyrirgjöf aftur inn í teig þar sem miðvörðurinn Ragnar Sigurðsson var einn á auðum sjó og skallaði framhjá Ómari í markinu.
Keflvíkingar tóku vel á gestunum eftir markið og voru oft nærri því að jafna, en Fjalar Þorgeirsson átti stórleik milli stanganna hjá Fylki, auk þess sem Guðni Rúnar Helgason varði skalla frá Guðjóni á línu.
Loks kom að því að varnirnar brustu á 35. mínútu þegar skot Kenneth Gustavssons úr teignum hrökk af Guðjóni Árna og í netið. Staðan orðin 1-1.
Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleik, en Haukur Ingi Guðnason, fyrrum leikmaður Keflavíkur, skallaði framhjá og Páll Einarsson átti skot af löngu færi sem Ómar sló frá markinu.
Fylkismenn sóttu mun meira, en voru ekki að komast í góð færi, enda var Haukur einn í framlínunni og mátti sín lítils gegn Gustavssson og Guðmundi Mete í vörninni.
Seinni hálfleikur var ekki nálægt því að vera jafn spennandi og skemmtilegur og sá fyrri, enda var veðrið og þungur völlurinn farin að taka toll af leikmönnum. Fylkismenn höfðu þó mun betri stjórn á leiknum þar sem Keflvíkingar komu sér varla í nokkurt færi.
Haukur Ingi slapp einn innfyrir á 50. mín, en sá ekki við Ómari. Á 69. mínútu tókst Eyjólfi Héðinssyni svo að skjóta langt framhjá marki Keflvíkinga út dauðafæri. Sannarlega afrek og mun hann sennilega muna lengi eftir þessu atviki.
Annað atvik átti sér stað stuttu seinna en þá sleppti dómarinn Kristinn Jakobsson því að dæma víti á klaufalegt brot Gustavsson á Páli Einarssyni innan vítateigs.
Fylkismenn voru í ökumannssætinu allan seinni hálfleikinn og virtist lengi sem mark lægi í loftinu, en þegar allt stefndi í jafntefli þeytti Kristinn flautuna á 89. mínútu og dæmdi víti þegar Haukur Ingi féll innan teigs eftir viðskipti sín við varnarmenn heimaliðsins. Þessi ákvörðun var alls ekki óumdeild og þótti heimamönnum sem Kristinn væri þar að bæta Fylki upp vítið sem þeir fengu ekki fyrr í leiknum þegar svo sannarlega var um brot að ræða.
Sævar Þór Gíslason stillti knettinum upp á punktinum og lét vaða á markið, en spyrnan var ekki mjög góð og Ómar veðjaði á rétt horn og sló boltann frá við gríðarlegan fögnuð stuðningsmanna Keflavíkur.
Það sem eftir lifði leiks áttu heimamenn betri tilraunir að marki en allt kom fyrir ekki og jafntefli var staðreynd.
Eftir leikinn eru Keflvíkingar í 4. sæti deildarinnar með 23 stig og mæta Val í næst síðustu umferð deildarinnar, á Keflavíkurvelli, nk. laugardag.
16. umferð lýkur á morgun með leik Grindavíkur og Vals á Laugardalsvelli.
Hér má sjá stöðuna í deildinni
VF-myndir/Jón Björn