Ólympíufarar afþökkuðu ísbað
Erla Dögg Haraldsdóttir og Árni Már Árnason eru nú stödd í æfingabúðum á vegum sundsambandsins í Singapore. Undirbúningur fyrir Ólympíuleikana gengur vel há sundfólkinu.
Æfingarnar fara fram í 50m útisundlaug en Íslendingarnir æfa þar ásamt sundmönnum frá Finnlandi og Eistlandi. Sundmenn margra þjóða æfa víðsvegar í Singapore fyrir leikana sem hefjast 8.ágúst.
Íslensku sundmönnunum var boðið í ísabað sem þjálfari frá Eistlandi hafði útbúið en þau afþökkuðu það. Það eru misjafnar leiðir sem þjálfarar fara til að ná því besta út úr íþróttamönnunum.
Hitinn er mikill í Singapore, rakinn í dag er um 74% og hitinn er 30 gráður en virðist vera 35,5. Hópurinn færir sig yfir til Peking 5 ágúst og kemur sér fyrir í Ólympíuþorpinu.
Mynd: Frá styrkveitingu GGE til Ólympíufaranna daginn áður en lagt var í hann til Singapore.