Ólöf Helga: Það getur allt gerst í þessu - úrslitakeppnin hefst í kvöld
Þessa dagana eru körfuknattleiksunnendur sjálfsagt kátir enda er úrslitakeppnin að hefjast í Iceland Express-deildum karla og kvenna. Ballið byrjar í kvöld en þá taka Njarðvíkurstúlkur á móti Snæfelli í Ljónagryfjunni en leikurinn hefst klukkan 19:15.
Þessi lið áttust einmitt við í bikarúrslitunum fyrir skömmu en þá höfðu Njarðvíkingar sigur. Ólöf Helga Pálsdóttir fyrirliði Njarðvíkur telur að ekki megi vanmeta liði Snæfells þrátt fyrir að Njarðvíkingar hafi haft betur í öllum viðureignum liðanna í vetur. „Þetta hafa allt verið erfiðir sigrar en það er alltaf gaman að keppa gegn Snæfellingum. Maður á ekki að vanmeta þær, þær eru með gríðarlega erfiðan heimavöll og maður verður að vera með hausinn í lagi ef maður ætlar sér sigur þar.
Núna er allt annað mót að hefjast að mati Ólafar og hún segist vera orðin ansi spennt. „Á æfingum er komið allt annað tempo í liðið og við erum allar heilar heilsu og til í slaginn,“ segir Ólöf. „Stemningin breytist þegar úrslitakeppnin hefst. Það er leikið annan hvern dag og við getum ekki beðið eftir því að byrja að spila, þetta er það sem maður hefur beðið eftir í allan vetur.“
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir kom inn í Njarðvíkurliðið aftur eftir að hafa tekið sér hlé frá körfubolta um skeið og Ólöf telur að tilkoma hennar muni hafa góð áhrif á liðið. „Hún á eftir að styrkja okkur alveg gríðarlega. Þetta er ekki bara reynsla sem hún kemur með til borðsins heldur er hún gríðarlegur baráttuhundur og frábær íþróttamaður. Hún á eftir að kenna ungu stelpunum sitt lítið af hvoru og svo er samkeppnin orðin meiri í liðinu eftir að hún kom inn, sem er bara af hinu góða.“
„Þetta eru álík lið þessi fjögur sem eftir eru og frekar jöfn að styrkleika. Við könnumst við þau og fórum í gegnum þau á leið okkar að bikarnum og við vitum að við getum unnið þau. Það þýðir samt ekki að leikirnir hafi verið auðveldir og gegn öllum þessum liðum getur þetta dottið báðum megin. Það getur allt gerst í þessu.“
„Ég býst við skemmtilegum körfuboltaleikjum og ef ég þekki Njarðvíkinga rétt þá held ég að það verði ekki vandamál að fylla Ljónagryfjuna. Ég hef kynnst því að stemningin er alltaf frábær hjá Njarðvík og í fyrra þá fylltust t.d. tvær rútur þegar við lékum í Hveragerði,“ og Ólöf segir að Grindvíkingar ætli jafnvel að fjölmenna á leikinn enda eru nokkrar stúlkur þaðan í Njarðvíkurliðinu, þar á meðal Ólöf sjálf. „Ég er orðin svakalegur Njarðvíkingur og hinir Grindvíkingarnir í liðinu voru einmitt að gera grín að mér um daginn því ég væri orðin svo mikill Njarðvíkingur,“ sagði hún að lokum.