Ólöf Edda stefnir hátt í sundinu
Fjögurra ára gömul byrjaði Ólöf Edda Eðvarðsdóttir hjá ÍRB að æfa sund þegar fjölskylda hennar var búsett í Danmörku en nú í júlí verður hún 14 ára. Hún hefur náð frábærum árangri undanfarið og er að margra mati ein af vonarstjörnum Íslands í sundíþróttinni.
Faðir hennar Eðvarð Þór Eðvarðsson, sem vart þarf að kynna fyrir íþróttaáhugamönnum var að þjálfa hana í nokkur ár en nú er hún ásamt öðrum sundmönnum ÍRB undir stjórn nýsjálenska þjálfarans Anthony Kattan sem hefur náð góðum árangri með sundmenn ÍRB. Ólöf Edda segir að margir krakkanna séu að bæta sig mikið undir hans stjórn en hann hefur verið hjá félaginu í rúmt ár.
Sterkustu greinar sínar segir Ólöf vera 400 metra fjórsund og 200 metra bringusund, en ef hún ætti að nefna veikar greinar þá nefnir hún baksundið sem einmitt var sterkasta hlið föður hennar á hans ferli. Hún segir enga pressu vera að búa með þessari sundgoðsögn sem Eðvarð faðir hennar er, hún segir það bara vera af hinu góða.
Fyrirmyndir hennar í sundinu eru Michael Phelps sem er sennilega besti sundmaður allra tíma og Leisel Jones bringusundskona frá Ástralíu. „Hún er mikil fyrirmynd mín,“ segir Ólöf.
Þann 20. júlí fer Ólöf til Tyrklands að keppa á Ólympíudögum æskunnar. Áður hefur Ólöf farið með ÍRB að synda erlendis og þrívegis með landsliði Íslands en hún var fyrst valin í landsliðið fyrir rúmu ári síðan.
„Mig langar að fara til Bandaríkjanna að læra og svo er stefnan sett á Ólympíuleikana 2016 sem fara fram í Ríó de Janero í Brasilíu. Á næsta ári er stefnan svo sett á Evrópumeistaramót unglinga í Belgíu og á Lux mótið í Lúxemborg.“ Hún segist ekki mikið vera að velta sér upp úr einhverjum markmiðum en er alltaf að reyna að verða betri og betri.
Ólöf æfði körfubolta um sinn en hætti fljótlega því það kemst lítið annað að en sundið þar sem æft er 8 sinnum í viku og tæpar fjórar klukkustundir á dag. Auk þess eru þrekæfingar þrisvar í viku þannig að Ólöf þarf að skipuleggja tímann vel. Það gengur vel að hennar sögn og skólinn, vinirnir og fjölskyldan sitja alls ekki á hakanum.
Ólöf hlaut á dögunum Ólafsbikarinn eftir frábæran árangur á Aldursflokkameistaramóti Íslands þar sem lið ÍRB fór með sigur af hólmi. Sá bikar var veittur í annað sinn en auk þess hlaut hún fjölda verðlauna á mótinu. Þegar komið er inn í herbergi Ólafar þá hanga tugir verðlaunapeninga yfir glugganum og sjálf segist Ólöf ekki hafa nákvæma tölu á hve margir peningarnir séu orðnir.
Ólöf hefur sett mörg met á stuttum ferli en hún á m.a. telpnamet í 400 metra fjórsundi í 50 metra laug en það er eitt af erfiðari sundum sem keppt er í að sögn kunnugra. Þar er hún ansi nálægt Íslandsmeti kvenna aðeins tæplega 14 ára gömul sem er augljóst merki um það hversu sterk sundkona hún er.
Hún er einnig að reyna við metið í 200 metra bringusundi í bæði lengri og styttri laug og í 100 metra flugsundi, svo á hún telpnametið í 50 metra flugsundi í 50 metra laug og einnig í 200 metra flugsundi. „Ég er betri í þessum lengri sundum. Ég er ekki mikill sprettari,“ segir Ólöf hógvær að lokum og ljóst er að þessi stúlka hefur allt til brunns að bera til að ná langt, hæfileika, metnað og stuðning frá sínum nánustu.