Öllum mörkum Guðmundar gerð ítarleg skil
Eins og fram hefur komið margoft bætti Guðmundur Steinarsson markamet Keflavíkur í efstu deild í leik gegn Grindavík fyrr í vikunni. Hann skoraði þá sitt 73. mark í efstu deild fyrir Keflavík. Á heimasíðu Keflavíkur er tekinn saman ítarlegur listi yfir öll 73 mörk Guðmundar með meistaraflokki og þeim gert góð skil. Gegn hverjum var skorað og á hvaða mínútu og svo með hvaða hætti Guðmundur skoraði.
Guðmundur hefur skorað þessi 73 mörk í 61 leik. Í 50 leikjum hefur hann gert eitt mark, tíu sinnum hefur hann skorað tvö mörk í leik og eina þrenna Guðmundar kom í 3-3 jafntefli gegn Fram í ágúst árið 2000. Keflavík hefur unnið 34 leiki þar sem Guðmundur hefur skorað, tapað tólf leikjum en fimmtán hefur lokið með jafntefli.
Þegar mörkin 73 eru skoðuð kemur í ljós að 38 þeirra voru skoruð með skotum, 21 mark kom úr vítaspyrnum, skallamörkin eru sjö, fimm mörk komu beint úr aukaspyrnu og Guðmundur hefur tvisvar afrekað að skora beint úr hornspyrnu. Af mörkunum 73 hafa 34 verið skoruð í fyrri hálfleik en 39 í þeim seinni.
Nánari upplýsingar hér á síðu Keflavíkur.