Öll spilin lögð á borðið í kvöld
Oddaleikur KR og Njarðvíkur framundan
Sigurður F. Gunnarsson, íþróttafréttamaður VF skrifar:
Leikur 5 í undanúrslitarimmu KR-inga og Njarðvíkur fer fram í DHL höllinni í Vesturbænum í kvöld. Rimma liðanna hefur verið frábær skemmtun, sveiflukenndir leikir, mikil barátta og dramatík. Allt sem körfuboltaáhugamenn hafa getað óskað sér. Það er því ekki nema við hæfi að það þurfi hreinan oddaleik til að gera upp á milli þessarar tveggja risa í íslenskum körfubolta.
Með fyllstu virðingu fyrir Njarðvíkurliðinu, þá hefðu flestir fyrirfram áætlað að KR ætti að klára Njarðvíkinga í 3-4 leikjum án þess að hljóta af því nein teljandi stríðssár. KR var svo til óstöðvandi vél í deildarkeppninni, töpuðu aðeins 2 leikjum og sópuðu svo út Grindvíkingum í 8 liða úrslitum. Liðið býr yfir mikilli reynslu og dýpt í leikmannahópnum, mönnum í landsliðsklassa ásamt því að tefla fram tveimur af sterkustu leikmönnum deildarinnar í Michael Craion og Pavel Ermolinskij, þótt að sá síðarnefndi hafi lítið spilað síðan um miðjan febrúar vegna meiðsla sem hann hlaut í bikarúrslitaleiknum við Stjörnuna. Leikmenn og þjálfarar annarra liða í deildinni hafa talað opinskátt um það í viðtölum í allan vetur að KR sé liðið sem þurfi að fara í gegnum til að eiga möguleika á titlum og að þeir séu besta lið deildarinnar, skuldlaust og án frekari orðalenginga.
Á hinn bóginn enduðu Njarðvíkingar í 4. sæti í deildinni þar sem að 1-2 leikir til eða frá hefðu getað þýtt að liðið hefði mögulega verið komið í sumarfrí í byrjun mars, svo jöfn var deildin frá 3. sæti niður í það 9. Njarðvíkingar fóru svo alla leið í oddaleik í epísku einvígi sínu við Stjörnuna og hefðu margir búist við því að langt væri gengið á eldnseytisbirgðir liðsins eftir það stríð.
Annað hefur svo sannarlega komið á daginn og hafa Njarðvíkingar barist, klórað og nagað sig í gegnum fjóra leiki gegn KR og berskjaldað Vesturbæinga á köflum og sýnt fram á að það er hægt að dansa með KR liðinu í gegnum heilt ball.
Njarðvíkurliðið hefur þó sýna veikleika og væri t.a.m. hægt að setja spurningamerki við sóknarleik liðsins sem vill verða hugmyndasnauður þegar Stefan Bonneau og Logi Gunnarsson eru ekki í stuði og skotin ekki að detta. Það mæðir mikið á þeim félögum að draga vagninn og skapa fyrir liðsfélaga sína. Mirko Viriijevic hefur verið að nokkuð stöðugur í hlutverki sínu undir körfunni þótt að hann sé ekki maður sem skilar 20 stigum í leik nema á tyllidögum en hans nærvera er liðinu mikilvæg. Hans baggi að bera er að reyna að temja dýrið í Michael Craion, allt annað sem hann hefur að bjóða er bónus.
Þegar öllu er á botninn hvolft verða Njarðvíkingar að virka djúpir sóknarmegin líkt og þeir gerðu í leik 4. Það er lykillinn að því að fara skrefinu lengra. Liðið þarf að fá stöðugt framlag frá mönnum eins og Ólafi Helga Jónssyni, Hirti Einarssyni, Maciej Baginski, Snorra Hrafnkelssyni og Ágústi Orrasyni sem hafa sýnt það að þeir geta allir tekið af skarið. Það er aftur á móti þegar á móti blæs og aðalkallarnir eru ekki að skila stigum sem að liðið þarf svo nauðsynlega á þeirra framlagi að halda því þessir strákar eru gulls í gildi þótt að þeir séu minna áberandi en kanónur liðsins. Það sem gerir þá svo verðmæta er vilji þeirra til að taka sínum hlutverkum alvarlega, báðum megin á vellinum. Þegar Njarðvíkingar fá frumkvæði og 10-15 stig í sókninni frá ekki nema tveimur af þessum leikmönnum er Njarðvíkurliðið með þá breidd sóknarlega sem til þarf til að landa titli. Það veltur því heilmikið á aukaleikurunum í stóra samhenginu.
Það er hins vegar varnarvinna Njarðvíkinga sem er þeirra brauð og smjör. Friðriki Inga Rúnarssyni og Teiti Örlygssyni hefur tekist vel upp í að fá alla um borð í þann vagn og vinna sem einn maður á sínum eigin vallarhelmingi. Þeir vita að með vörninnni kemur sóknin og þar er brunn sjálfstrausts að finna fyrir allt liðið.
Mynd: karfan.is
Njarðvíkingar hafa vaxið mikið á síðustu mánuðum, eru að slípast í eitt virkilega gott körfuboltalið og eru að toppa í sinni spilamennsku á hárréttum tíma. Vissulega má færa gild rök fyrir því að tilkoma Stefan Bonneau hafi haft heilmikið að gera með það hvernig Njarðvíkurliðið hefur mótast en það leggur enginn KR-inga tvisvar í fjórum tilraunum einn síns liðs. Logi Gunnarsson hefur minnt rækilega á sig sem einn besta varnarmann landsins og leiðtogahæfni hans á vellinum er erfitt að véfengja. Njarðvíkurhjartað slær taktfast í liðinu og utan um sjálft liðið eru dyggir stuðningsmenn sem láta í sér heyra í 40 mínútur og lengur ef það er það sem þarf.
Leikurinn í kvöld mun ráðast af því hvoru liðinu tekst að beisla spennustigið betur. Bæði lið hafa sýnt það að á gefnum degi geta þau bæði tapað og sigrað í þessu einvígi. Nú er það sálfræðin sem ræður förinni og mun hún annaðhvort fleyta þér í úrslitaeinvígið eða senda þig í sumarfrí. Vægðarlaust.
Njarðvíkingar geta verið stoltir af sínu liði sama hvernig fer, svo mikið er víst og það fer í sögubækur umfram annað. Liðið hefur afsannað margar kenningar og spár spekinga sem reiknuðu flestir með því að liðið kæmist ekki í gegnum 8 liða úrslitin. Tölfræðilega eiga þeir kannski að tapa leiknum í kvöld en það er eitthvað sem segir manni að öllum sé nokkurn veginn sama um alla tölfræðiþætti á þessum tímapunkti.
Pressan er nú öll á KR-ingum sem áttu samkvæmt formúlunni að fara nokkuð auðveldlega í gegnum einvígið áður en kaflar bókarinnar voru skrifaðir. Það er ekki klisja eða einföldun. Maður skynjaði það á leikmönnum og þjálfara liðsins eftir síðasta leik í viðtölum. Það er búið að planta efa í huga þeirra og ekki er ósennilegt að fundur liðsins fyrir leikinn í kvöld verði í lengra laginu. Það skal þó enginn efast um að KR liðið mæti ekki tilbúið til leiks.
Á meðan beðið er eftir leiknum í kvöld eins og barn sem bíður eftir jólum á aðfangadag veltir maður bara einni spurningu fyrir sér:
Er hungrið enn til staðar hjá Ljónunum frá Njarðvík eða er liðið sátt með það sem á borðið hefur verið lagt?
Þeirri spurningu verður svarað í DHL höllinni í kvöld. Dómarakast er áætlað á slaginu 19:15.
Allir á völlinn!