Ólík hlutskipti Suðurnesjaliðanna í kvöld
Grindavík og Keflavík léku annan leik sinn í 8-liða úrslitum Subway-deildar karla í kvöld. Grindavík vann Íslandsmeistara Tindastóls norðan heiða í ótrúlegum leik en Keflvíkingar létu nýliða Álftnesinga kjöldraga sig.
Eftir að hafa kjöldregið Stólana í þrjá leikhluta og verið 32 stigum yfir, skoruðu gulir 0 stig á meðan Stólarnir settu 19 stig! Vali Orra tókst loks að brjóta ísinn með neyðarskoti við lok skotklukku og þar með brast loksins stíflan og gulir sigldu sigrinum heim. Lokatölur 88-99.
Ólafur fyrirliði Ólafsson fór fyrir sínum mönnum, skoraði 24 stig og tók 12 fráköst.
Í hinum leiknum steinlágu Keflvíkingar, 77-56.
Remy Martin stigahæstur keflvískra með 17 stig, hann var sá eini sem komst yfir 10 stigin, það segir eitthvað um frammistöðu Keflvíkinga.