Óli Jó vildi Ómar í landsliðið
Ómar Jóhannsson er með það skjalfest að Ólafur Jóhannesson, fráfarandi landsliðsþjálfari vildi fá hann í landsliðið. Hann skrifaði undir skjal þess efnis í Kringlunni um síðustu helgi en þar hittust þeir félagar og ræddu saman um landsliðsdrauma Ómars.
„Þetta var alger misskilningur að Ómar skyldi ekki valinn í landsliðið. Ég held að þetta hafi verið klúður á skrifstofu KSÍ. Þeir hringdu alltaf í ranga markverði. Ég skyldi þetta aldrei. Þetta eru hrein og klár mistök og ég staðfesti það með þessari undirritun að ég hefði alltaf viljað fá Ómar í landsliðsmarkið. Vonandi velur nýr þjálfari hann enda er hann frábær markvörður,“ sagði Ólafur í stuttu spjalli við VF þegar hann var spurður út í hitting þeirra félaga í Kringlunni en hann var einn þáttur í steggjun Ómars sem gengur í það heilaga 11. nóv. nk. eða 11.11.11. Hvort að undirskrift Ólafs hafi verið grín á eftir að koma í ljós og skýrist kannski þegar sænski þjálfari landsliðsins fær rétt símanúmer Ómars hjá Óla Jóh.
Úr því landsliðsdraumur Ómars hefur ekki enn orðið að veruleika hefur hann ákveðið að reyna fyrir sér á fleiri sviðum því hann spreytir sig nú sem pistlahöfundur í Víkurfréttum. Fyrsti pistill markvarðarins birtist í blaðinu á morgun, 3. nóv.
Þar fjallar hann um ófarir annarra og enska boltann og segir m.a.: „Mikið ofsalega er það gott á þessum síðustu og verstu að geta glaðst yfir óförum annarra. Manchester United, erkióvinur okkar Liverpool manna tapaði nefnilega gegn grönnum sínum í City 1-6 og það á heimavelli. Það gladdi mitt litla Liverpool hjarta alveg ótrúlega mikið að sjá óvininn niðurlægðan á heimavelli þrátt fyrir að við ættum engan þátt í leiknum.“
Á myndinni má sjá Ólaf Jóh. skrifa undir skjalið. Ómar fylgist með - í landsliðsbúningnum.