Óli Baldur með fimm mörk í stórsigri Reynis
Reynismenn í Sandgerði eru á siglingu í 4. deildinni og eru eina liðið í öllum deildum á Íslandi í ár sem hefur ekki tapað leik á þessu leiktímabili. Þeir unnu Hörð með tíu mörkum gegn engu sl. laugardag og skoraði Óli Baldur Bjarnason fimm mörk en Grindvíkingurinn kom til liðsins fyrr í sumar. Keflvíkingurinn Hörður Sveinsson skoraði tvö og þeir Guðmundur Óli Gunnarsson, Birkir Freyr Birkisson og Alexander Aron Hannesson eitt hver í þessum stóra sigri.
Sandgerðingar eru komnir í úrslitakeppnina og stefna beint upp í 3. deildina og miðað við frammistöðuna að undanförnu hlýtur leiðin að liggja enn ofar í íslenskum fótbolta. Þeir eru með 34 stig og hafa unnið 11 leiki og aðeins gert eitt jafntefli. Gamli Keflavíkurfyrirliðinn Haraldur Guðmundsson þjálfar liðið og virðist vera að gera flotta hluti með Reynismenn.
Annað Suðurnesjalið er í 4. deildinni en það er Knattspyrnufélagið GG. Liðið er í 4. sæti í C-riðli deildarinnar með 25 stig.