Ólafur endurkjörinn formaður UMFN
Ólafur Eyjólfsson var endurkjörinn formaður UMFN á aðalfundi félagsins þann 16. mars sl. Sitjandi stjórn var einnig endurkjörin ásamt Ólafi.
Ólafur fór yfir framtíðarsýn UMFN á fundinum og mynduðust góðar umræður og var meðal annars rætt hvar staðsetja ætti nýtt íþróttahús en núverandi húsnæði er orðið of lítið fyrir félagið. Nokkrir tóku til máls á fundinum og komu með mismunandi skoðanir á málinu en það er síðan í höndum bæjaryfirvalda að ákveða hvar næsta íþróttahús verði byggt.
Helgi Gunnarsson og Ómar Stefánsson frá UMFÍ heimsóttu fundinn og tóku til máls.
Reikningar félagsins voru lagðir fram og er rekstur félagsins í góðu jafnvægi og eiga stjórnir deilda hrós skilið fyrir gott starf.
Heiðursviðurkenningar voru veittar á fundinum og hlutu Jóhannes Kristbjörnsson, Halldóra Lúthersdóttir og Valþór Söring Jónsson gullmerki félagsins. Sturla Ólafsson fékk silfurmerki félagsins. Hafsteinn Hilmarsson fékk Ólafsbikarinn fyrir langt og gott starf hjá félaginu, bæði sem leikmaður og fyrir störf í stjórn og unglingaráði körfuknattleiksdeildarinnar.