Ólafur Aron til Reynis
Reynir Sandgerði hefur fengið sterka leikmenn fyrir átökin í 1. deild karla í körfuknattleik í vetur. Njarðvíkingarnir Ólafur Aron Ingvason og Helgi Már Guðbjartsson hafa gengið til liðs við liðið. Ásamt þeim mun bandaríski leikmaðurinn Darryl Lewis spila með Sandgerðingum en hann er að þjálfa yngri flokka hjá Keflavík í vetur.
Hlynur Jónsson, annar þjálfari Reynismanna, staðfesti við Víkurfréttir að leikmennirnir væru búnir að skipta og með tilkomu þeirra væri hópurinn mun breiðari. ,,Ólafur Aron hefur komið ágætlega út úr banninu og staðið sig mjög vel á æfingum. Darryl kemur til okkar sem áhugamaður og er á sömu forsendum eins og allir aðrir. Hann er að þjálfa yngri flokka hjá Keflavík í vetur en hann hefur spilað í áhugamannadeild á Spáni.”
Reynir heldur öllum sínum leikmönnum frá því í fyrra bætir aðeins við sig. Hlynur sagði að markmið tímabilsins væru mjög skýr. ,,Stefnan er að halda sér uppi og það er það sem við stefnum á. Við rennum nokkuð blint í þetta en fyrsti leikurinn okkar er gegn Breiðablik og þá kemur í ljós hvernig þetta verður hjá okkur í vetur.”
Ólafur Aron fékk tveggja ára keppnisbann árið 2005 frá ÍSÍ fyrir neyslu örvandi efna.
VF-Mynd/Þorgils - Ólafur Aron í leik með Njarðvík