Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ólafur Aron í 2ja ára bann
Þriðjudagur 10. maí 2005 kl. 23:48

Ólafur Aron í 2ja ára bann

Ólafur Aron Ingason, leikmaður Njarðvíkur í körfuknattleik, var í dag dæmdur í tveggja ára keppnisbann eftir að hafa fallið á lyfjaprófi fyrir skemmstu. Í prufu sem var tekin af Ólafi í kjölfar bikarsigurs Njarðvíkur á Fjölni greindist amfetamín.

Hafsteinn Hilmarsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, segir málið mikið áfall fyrir félagið fyrir utan það sem lagt er á leikmanninn sjálfan. Lengd bannsins hafi í sjálfu sér ekki komið honum á óvart miðað við eðli brotsins.

„Við hörmum þetta þar sem við fordæmum að sjálfsögðu alla lyfjanotkun í íþróttum. Við munum í framhaldinu halda áfram að brýna fyrir okkar iðkendum hversu skaðlegt þetta er jafnt fyrir félagið sem og þá sem fara þessa braut.“

Hafsteinn bætti því við að samfélagið heild sinni þyrfti að leggja frekari áherslu á forvarnir gegn fíkniefnum. Hann vonaði að þetta leiðinlega mál sýni ungu fólki sem er að æfa íþróttir hvað slíkt geri fyrir íþróttaferil og mannorð manna.

Ólafur er sagður stefna erlendis í nám, en Hafsteinn segir ekki útséð með að Ólafur hafi leikið sinn síðasta leik fyrir félagið. „Ef hann sýnir það og sannar að hann hafi snúið blaðinu við er ekkert því til fyrirstöðu að hann leiki með Njarðvík eftir að hann hefur tekið út leikbannið.“

VF-mynd úr safni. Ólafur í leik í vetur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024