Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

„Okkar styrkleiki er samheldni“
Föstudagur 27. apríl 2018 kl. 06:00

„Okkar styrkleiki er samheldni“

- Þurfum að hafa virkilega trú og þroska í það að verða sigurvegarar, segir Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga í Pepsi-deildinni

Grindavík tekur á móti FH í fyrsta leik sumarsins í Pepsi-deild karla þann 28.apríl á Grindavíkurvelli en liðinu er spáð sjöunda sæti í deildinni en markaskorari ársins í fyrra í Pepsi-deildinni, Andri Rúnar mun ekki leika með Grindavík á næsta tímabili þar sem að hann er farinn út í atvinnumennsku. Liðið stefnir að því að halda sér í deildinni en Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur segist taka lítið mark á spám yfir höfuð og nýtir sér þær í hag. Liðinu var ekki spáð góðu gengi í fyrra en endaði í fimmta sæti Pepsi- deildarinnar. Óli Stefán svaraði nokkrum spurningum fyrir Víkurfréttir um tímabilið, meiðsli og markmið liðsins.

Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið?
Það hefur gengið vel. Höfum spilað mikið af leikjum, sumir hafa spilast vel, aðrir ekki. Við fórum í úrslit í báðum vetrarmótunum þar sem við töpum báðum leikjunum. Aðalmálið er þó að við erum tilbúnir fyrir alvöruna sem hefst næstu helgi á heimaleik við FH.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig er staðan á hópnum?
Staðan á hópnum er ágæt. Síðustu tvær vikur hafa verið að detta inn svokölluð furðumeiðsli en það er t.d bólginn hæll, tábergssig, aðgerð á putta. Ekki þessu týpísku meiðsli en vissulega vont að fá svona inn rétt fyrir mót.  Það verða kannski 2-3 leikmenn frá í fyrsta leik.

Hvert er markmið sumarsins?
Fyrsta markmið er að halda okkur í deildinni. Til þess þurfum við stig á leik sem verður þá parið okkar. Vonandi náum við þeim stigum bara sem fyrst því þá getum við farið beint í næsta markmið sem er að gera betur en í fyrra.

Ætlið þið að fá fleiri leikmenn áður en leikmannaglugginn lokar?
Þetta snýst allt um að finna leikmenn sem eru á lausu og það er bara mjög lítið um það hér á landi. Við erum samt með augun opin og ef eitthvað spennandi dettur inn gætum við bætt í hópinn.

Mynd: Benóný Þórhallsson.

Ykkur er spáð sjöunda sæti, í deildinni, hvað finnst ykkur um það?
Ég hef lært það í gegnum tíðina að taka lítið mark á spám. Síðan ég byrjaði að þjálfa hefur mínu liði verið spáð neðarlega. Það eina sem ég tek úr því er að nota þá spá okkur í hag og minna reglulega á það að þetta er það álit sem aðrir hafa á okkur. Deildin er mjög jöfn í ár og ef ég tek t.d lið eins og Keflavík sem víða er spáð falli þá get ég sagt það með fullri vissu að erfiðasti leikur okkar í sumar verður í annari umferð þegar við förum í útileik við þá. Okkur var spáð 6. sæti í Inkasso- deildinni en við enduðum númer 2. Okkur var svo spáð 11. sæti en við enduðum númer 5. Spá er bara spá og það þýðir lítið að velta þeim fyrir sér.

Er einhver leikmaður sem þú vilt nefna sem hefur sýnt framfarir í vetur eða bindur miklar vonir við?
Það hafa margir það sameiginlegt í hópnum okkar að hafa sýnt miklar framfarir sem er mikilvægt fyrir lið eins og Grindavík. Ef okkar lið á að taka skref áfram þurfa yngri leikmenn sérstaklega að læra hratt. Sem betur fer er að koma upp sterkur kjarni ungra leikmanna hjá okkur, sá stærsti og sterkasti í langan tíma. Þeir eru nokkrir þar sem eru farnir að minna verulega á sig og það er jákvætt.

Hver er leiðtoginn í hópnum og heldur leikmönnum saman?
Er með nokkra leiðtoga í hópnum. Fyrirliðinn Gunnar Þorsteinsson er einn þeirra og sér um að allt sé á hreinu. Frábær karakter og einn besti fyrirliði ef ekki sá besti sem Grindavík hefur átt.

Skiptir stuðningurinn máli?
Án stuðnings er ekkert fjör í þessu. Það á jafnt við í stúkunni eins og fyrir utan völlinn. Ég hef upplifað frábæra tíma hér í Grindavík bæði sem leikmaður og eins sem þjálfari. Grindavík er rétt rúmlega 3000 manna bæjarfélag og það á lið á meðal þeirra bestu í tveimur hópíþróttum, fótbolta og körfubolta bæði karla og kvenna. Oft finnst mér að fólk hérna átti sig ekki á þessu og taki þessu sem sjálfsögðum hlut. Sem betur fer eigum við samt kjarna sem stendur með okkur í blíðu og stríðu en það mættu vera fleiri. Ég er þess samt fullviss um að Grindavík fari nýjar hæðir hvað þetta varðar í sumar.

Hver er ykkar styrkleiki / veikleiki?
Styrkleikinn myndi ég segja að væri samheldni. Við erum með stóran hóp leikmanna sem hafa verið með okkur Jankó og Steina í þrjú ár þannig að þeir þekkja hlutverk sín mjög vel. Ég horfi þannig á hlutina þegar byggt er upp lið að ég vill frekar góðan hóp af duglegum og sterkum týpum heldur en lið uppfullt af stjörnum. Styrkleikinn liggur akkúrat í því að ég er með leikmenn sem vilja vinna fyrir liðið á kostnað eigins egó. Síðan ég tók við liðinu höfum við spilað í rauninni fjóra úrslitaleiki. Sá fyrsti var um sigur í Inkassódeilinni í leik fyrir norðan á móti KA, við töpuðum 2-1. Í janúar fórum við í úrslitaleik við Stjörnuna í Fótbolta.net mótinu en töpuðum þeim leik 1-0.  Við fórum í úrslit lengjubikarsins tvö ár í röð en töpuðum þeim leikjum á móti KR og Val. Þarna liggur hugsanlega veikleikinn, að taka skrefið alla leið og hafa virkilega trú og þroska í það að verða sigurvegarar.