Ógeðsdrykkur á Uppskeruhátíð
Uppskeruhátíð yngri flokka Keflavíkur í körfuknattleik fór fram í dag. Fjölmenni var í íþróttahúsinu við Sunnubraut þar sem stemmningin var frábær og allir skemmtu sér vel. Það var ekki síst að þakka æringjunum Audda og Sveppa af Popptíví sem héldu uppi fjörinu eins og þeim einum er lagið.
Þeir tóku upp á ýmsu og var ógeðsdrykkurinn að sjálfsögðu á matseðlinum. Í þetta skiptið samanstóð hann af súkkulaðiís, lauk og pylsusinnepi sem var hrært saman í blandara. Þess háttar samsetning er ekki beint girnileg á að sjá, en þó létu krakkarnir ekki slá sig út af laginu og kláruðu sullið án þess að kvarta!
Eftir þriggja stiga keppni þar sem Auddi þurfti að lúta í lægra haldi fyrir krökkunum var komið að verðlaunaafhendingu þar sem veitt voru verðlaun fyrir mestu framfarir, mikilvægasta leikmanninn og besta leikmanninn í öllum flokkum. Þar máttti greinilega sjá að yfirburðir Keflavíkur í meistaraflokkum karla og kvenna ættu að geta haldist næstu árin vegna þess að nægur efniviður er svo sannarlega fyrir hendi í yngri flokkunum.
Að athöfninni lokinni lék unglingahljómsveitin Pointless nokkur frábær lög sem þau höfðu samið sjálf og að lokum deildu Íslandsmeistarar karla úr Keflavík út pizzum og kóki til viðstaddra þannig að allir héldu heim á leið saddir og glaðir.
VF-myndir/Þorgils. 1:Allir verðlaunahafar yngri flokka, 2: Ógeðsdrykkur rennur ljúft niður.