Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ofur-hlaup á Reykjanesi frábær kynning fyrir svæðið
Ljósmyndir frá hlaupi, Sebastian Stiphout.
Laugardagur 1. júní 2013 kl. 07:28

Ofur-hlaup á Reykjanesi frábær kynning fyrir svæðið

- Einstakt á heimsvísu

Svokallað Original Mountain Marathon hlaup (OMM) var haldið á Reykjanesi öðru sinni um síðastliðna helgi. Original Mountain Marathon hlaup er mjög erfitt, en farnir eru 80 km á tveimur dögum í tveggja manna liði og þurfa þátttakendur að bera allan farangur á meðan á hlaupinu stendur m.a.: tjald, svefnpoka og mat en gist er í tjaldi á leiðinni. Eins og í fyrra var hlaupið frá tjaldsvæðinu í Grindavík á föstudag og endað í Bláa Lóninu á sunnudegi. Að þessu sinni tóku 20 manns þátt í hlaupinu eða 10 lið. Suðurnesjakonan Bergey Sigurðardóttir er ein af þeim sem koma að undirbúningi en hún segir að hlaupið í fyrra hafi heppnast það vel að nú sé útlit fyrir að hlaupið verði árlegur viðburður. „Hlaupið gæti orðið mjög vinsælt, en þar spilar svæðið mikið inn í en Reykjanesið er mikið aðdráttarafl fyrir hlaupara. Aðstandendur hlaupsins hafa einnig verði að vekja áhuga Íslendinga á hlaupinu. Þetta hlaup er því  skemmtileg nýjung sem Íslendingar eiga vonandi eftir að taka vel í. Ástæða þess að Reykjanesið varð fyrir valinu var fyrst og fremst þessi einstaka náttúruperla sem svæðið er, en landslagið er einstakt og má segja að það sé hvergi hægt að finna svipað svæði í heiminum. Keppendur í fyrra voru mjög heillaðir af hlaupaleiðinni og næstum allir sem tóku þátt í fyrra voru að taka þátt aftur núna,“ segir Bergey.

Bergey sem er útskrifaður ferðamálafræðingur starfar hjá ferðaskrifstofunni All Iceland í Bretlandi sem sérhæfir sig í ferðum til Íslands en fyrirtækið er í eigu Íslendinga. Bergey segir að það sé  ótrúlegt hvað þetta svæði gleymist þegar kemur að ferðamennsku á Íslandi. Þó hefur hún tekið eftir því að áhuginn sé alltaf að aukast með árunum. „Ferðamennskan er alltaf að toppa sig á Íslandi og er búist við gífurlegum fjölda ferðamanna í sumar. Í dag er Ísland vinsæll áfangastaður allan ársins hring og því ekki lengur bundið við ákveðin tímabil eins og áður var. Hér á Suðurnesjunum leynast því mörg tækifæri. Hlaup líkt og Original Mountain Marathon, sem laðar að ferðamenn alls staðar að úr heiminum, ætti því vonandi að hafa jákvæð áhrif á ferðamennskuna á svæðinu sem og alla þjónustu. Með tímanum er vonast til að hlaupið eigi eftir að stækka enn frekar sem getur vonandi leitt að því að Reykjanessvæðið muni verða einn af þeim „must“ áfangastöðum sem ferðamenn stoppi á þegar þeir eru á Íslandi.“ sagði Bergey.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tvenn hjón í brúðkaupsferð

Eins og oft á Íslandi þá spilaði veðrið stóran þátt í dagskránni sem gerði hlaupið bara enn meira ævintýri. Hressir hlauparar mættu til leiks og kláruðu 18 hlauparar hlaupið en þeir komu frá fimm löndum, Sviss, Englandi, Skotlandi, Íslandi og einnig var með í för ljósmyndari frá Þýskalandi. Skemmtilegt er frá því að segja að í hlaupinu voru tvenn nýgift hjón í brúðkaupsferð. Allir hlaupararnir voru alsælir.Toppurinn var að síðan að sjá reykinn frá Bláa Lóninu þar sem markið var og fólki fannst þetta frábær endir á góðu hlaupi að slaka á í Lóninu. Nokkur lið náðu að stimpla sig inn á allar stöðvar og var því tíminn sem réð úrslitum hverjir unnu hlaupið en sigurvegaranir hlupu rúmlega 70 km á tveimur dögum.

Aðstandendur hlaupsins eru alsælir með hlaupið og vonast til að enn fleiri þátttakendur taki þátt að ári. Á næstu vikum verða kynningar á hlaupinu vegna 2014 og birtar verða myndir frá hlaupinu víða um heim.