Oddaleikur í Keflavík á fimmtudaginn
Keflvíkingar tryggðu sér oddaleik á heimavelli næsta fimmtudag með því að leggja Snæfell að velli í Hólminum í kvöld í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla. Úrslit urðu 73-82.
Keflvíkingar höfðu undirtökin í leiknum, voru grjótharðir í vörninni og einbeittir til sigurs. Snæfell leiddi eftir fyrsta leikhlutann 19-12. Sverrir Þór Sverrisson skaut Keflvíkinga inn í leikinn í upphafi annars leikhluta með tveimur þriggja stiga körfum. Hörður Axel Vilhjálmsson bætti svo við tveimur þristum til viðbótar. Staðan í hálffleik var 34-40.
Keflvíkingar höfðu þriggja stiga forystu í þriðja leikhluta, 57-60. Þeir höfðu undirtökin og þétt vörn þeirra reyndist heimamönnum ofraun.
Urule Igbavboa var með 20 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar fyrir Keflavík. Atkvæðamestur í liði Snæfells var Jeb Ivey með 22 stig og 7 stoðsendingar. Oddaleikurinn verður í Keflavík á fimmtudag en það lið sem sigrar í þeim leik verður Íslandsmeistari.