Oddaleikur á föstudag!
Njarðvíkingar lögðu KR og staðan 2-2
Það þarf oddaleik annað árið í röð til þess að útkljá magnaða rimmu Njarðvíkur og KR í undanúrslitum Domino's deildarinnar í körfu eftir að þeir Grænu sigruðu í spennandi leik á heimavelli sínum í kvöld. Staðan 74:68 að loknum spennandi leik þar sem baráttan og hjartað voru Njarðvíkurmegin undir lokin.
Atkinson var frábær hjá Njarðvík í kvöld en hann skoraði 29 stig og tók 15 fráköst. Þeir Maciek og Logi voru einnig frábærir og þá sér í lagi undir lokin þegar mest reyndi á. Logi hefur verið sérstaklega öflugur í því að draga sína menn áfram og halda uppi stemningu innan liðsins. Hrein unun að sjá ástríðuna hjá manninum. Maciek var líka magnaður á upphafsmínútum þar sem hann var allt í öllu.
Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur en Njarðvíkingar byrjuðu með hvelli. Komust í 14-0 og svo í 18-3. KR er hins vegar með það sterkan hóp að þeir voru ekki af baki dottnir þrátt fyrir að leika án Pavel Ermolinskij sem meiddist í upphitun. Þeir komu grimmir tilbaka og náðu að jafna og komast 9 stigum þegar mest var. Þriðji leikhluti var svo eign Njarðvíkinga en hann tóku þeir með 14 stigum. Lokaleikhlutinn var svo tvísýnn og liðin skiptust á að skora stórar körfur.
Njarðvík-KR 74-68 (19-14, 15-28, 26-12, 14-14)
Njarðvík: Jeremy Martez Atkinson 29/15 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 17/5 fráköst, Logi Gunnarsson 16/5 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 5, Haukur Helgi Pálsson 5/8 fráköst/8 stoðsendingar, Oddur Rúnar Kristjánsson 2/8 stoðsendingar, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0, Oddur
Birnir Pétursson 0, Hjörtur Hrafn Einarsson 0.
KR: Michael Craion 28/12 fráköst/3 varin skot, Brynjar Þór Björnsson 14/5 fráköst, Darri Hilmarsson 12, Helgi Már Magnússon 9/13 fráköst, Björn Kristjánsson 5, Jón Hrafn Baldvinsson 0, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Arnór Hermannsson 0, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 0, Snorri Hrafnkelsson 0, Pavel Ermolinskij 0, Andrés Ísak Hlynsson 0.