Oddaleikir á þriðjudag
KR og Grindavík náðu í gærkvöldi að tryggja sér oddaleiki í undanúrslitum Epson-deildarinnar í körfubolta. KR vann Njarðvík á heimavelli, 91:77, en með sigri hefðu Njarðvíkingar unnið viðureign liðanna og tryggt sér sæti í úrslitarimmunni. Grindvíkingar náðu einnig að jafna viðureign sína við Hauka, með sigri í Grindavík 83:80 og verður því einnig hreinn úrslitaleikur í þeirri rimmu á þriðjudag. Athygli vekur að allir leikirnir í undanúrslitunum hafa unnist á heimavelli.Leikur KR og Njarðvíkur var jafn framan af, en Njarðvíkingar töpuðu boltanum oft undir lok fyrri hálfleiks og óhætt að segja að það hafi orðið þeim að falli. Í hálfleik voru KR-ingar tíu stigum yfir, 45:35, og náðu Njarðvíkingar aldrei að vinna upp það forskot, þrátt fyrir nokkra góða spretti í síðari hálfleik og villuvandræði KR-inga. Tveir lykilmenn KR, þeir Jonathan Bow og Keith Vassel voru komnir með fjórar villur snemma í síðari hálfleik og Arnar Kárason fór af leikvelli um miðjan síðari hálfleik með fimm villur. Ólafur Jón Ormsson átti stórleik fyrir KR í gærkvöld og skoraði 29 stig en Keith Vassel sem lék einnig vel, var með 24 stig. Besti leikmaður Njarðvíkinga í leiknum, Reiley Inge var með 19 stig, en næstir honum voru Friðrik Stefánsson og Teitur Örlygsson með 14 stig hvor. Þá var Páll Kristinsson með 12 stig.Í Grindavík ríkti gríðarleg spenna þegar Grindvíkingar unnu nauman sigur á Haukum, 83:80, og tryggðu sér oddaleik í einvígi liðanna. Leikurinn var hnífjafn og skiptust liðin á að komast yfir. Það var ekki fyrr en í blálokin að Grindavík náði að tryggja sér sigur í leiknum, en þeir lentu undir í stöðunni 76:78 þegar um tvær og hálf mínúta var eftir. Þá Tók Bjarni Magnússon Ótrúlegan lokasprett og skoraði tvær þriggja stiga körfur og eitt stig úr víti og gerði þar með út um leikinn. Stigahæstur í liði heimamanna var Brenton Birmingham með 34 stig, en hann átti mjög fínan leik. Alexander Ermolinskij skoraði 14 stig, Bjarni Magnússon 12 og Pétur Guðmundsson 11. Í liði Hauka sýndi Guðmundur Bragason stórleik, skoraði 23 stig og hirti níu fráköst. Marel Guðlaugsson skoraði 15 stig fyrir Hauka en Jón Arnar Ingvarsson og Stais Böseman 14 stig hvor.