Óbreytt staða á toppnum
Keflvíkingar eru enn i toppsæti Intersport-deildarinnar eftir auðveldan sigur á Tindastóli í frekar bragðdaufum leik í Sláturhúsinu í gær, 97-81.
Greinilegt var á leik liðanna að jólasteikin sat eitthvað í mönnum því að hann var lítið fyrir augað og fátt um fína spretti.
Gestirnir byrjuðu betur og voru skrefinu á undan í upphafi leiks þar til Keflvíkingar tóku sig á í vörninni og var jafnt, 18-18, eftir fyrsta leikhluta.
Heimamenn komu sterkir inn í öðrum leikhluta og náðu þar upp forskoti sem Tindastólsmenn náu aldrei að brúa. Munurinn var 10 stig í hálfleik, 43-33, og héldu þeir fáu sem lögðu leið sína á leikinn að nú væru meistararnir komnir á bragðið og myndu valta yfir Stólana, sem voru fyrir leikinn í næst-neðsta sæti deildarinnar.
Sú varð þó ekki raunin þökk sé frábærri frammistöðu Svavars Birgissonar, sem var besti maður vallarins og soraði 31 stig þar af fjórar 3ja stiga körfur úr jafn mörgum tilraunum. Tindastóll hékk í leiknum og minnkaði muninn niður í 6 stig þegar minnst var áður en heimamenn sigu loksins framúr og unnu sannfærandi sigur án þess að þurfa að hafa mikið fyrir hlutunum.
„Það var bara formsatriði fyrir okkur að klára þennan leik,“ sagði Gunnar Einarsson, fyrirliði Keflavíkur í leikslok. „Við hristum þá af okkur í restina, en það er stóleikur gegn Njarðvík um helgina og það var gott að ná úr okkur hrollinum fyrir þann leik.“
KFÍ-NJARÐVÍK
Botnlið KFÍ byrjaði vel gegn Njarðvíkingum á heimavelli sínum í gærkvöldi en leikmenn Suðurnesjastórveldisins sýndu hvað í þeim bjó og völtuðu yfir lánlausa heimamenn, 55-108.
Staðan var jöfn eftir fyrsta leikhluta, 24-24 þar sem vörn Njarðvíkinga var úti á þekju, en eftir að tóku þeir grænu öll völd á vellinum. Friðrik Stefánsson átti stórleik undir körfunni og náði að halda aftur af miðherja KFÍ, ,Joshua Helm, sem hefur verið mjög sterkur í vetur.
Munurinn jókst stig af stigi og var staðan í hálfleik 30-56. Þegar yfir lauk var næstum helmingsmunur á liðunum sem segir sína sögu um tímabilið hjá KFÍ, en þeir hafa enn ekki unnið leik.
Stigahæstir:
Njarðvík: Anthony Lackey 25, Friðrik Stefánsson 15, Matt Sayman 12, Páll Kristinsson 12, Ólafur Ingvason 10.
KFÍ: Josh Helm 18, Pétur Sigurðsson 15, Baldur Jónasson 10.
SNÆFELL-GRINDAVÍK
Grindvíkingar eru enn í neðri hluta Intersport-deildarinnar eftir tap gegn Snæfelli í Stykkishólmi, 94-78. Snæfellingar eru því enn jafnir Njarðvík og Keflavík á toppnum með 18 stig, en Grindavík er í 7. sæti með 6 sigra og jafnmörg töp.
Leikurinn var jafn og hraður til að byrja með og Grindvíkingar náðu forystunni á tímabili, en heimamenn komust jafnharðan yfir og leiddu, 23-20, eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta náðu Snæfellingar upp góðu forskoti sem þeir héldu allt til loka og voru komnir með 13 stiga forskot í hálfleik, 48-35.
Munurinn hélst fram á lokakaflann þar sem gestirnir sóttu í sig veðrið og minnkuðu muninn niður i 6 stig en Snæfellingar voru sterkari á endasprettinum
VF-myndir/Þorgils Jónsson