Nýtt þjálfarateymi klárt
Keflvíkingar hafa gengið frá ráðningu nýs þjálfarateymis meistaraflokks kvenna í knattspyrnu fyrir næsta tímabilið.
Sem fyrr mun Gunnar M. Jónsson stýra liðinu en honum til aðstoðar verða þeir Hjörtur Fleldsted, sem verður aðstoðar- og styrktarþjálfari liðsins, og Óskar Rúnarsson verður liðstjóri með áherslu á leikgreiningar, klippingar, tölfræðisvinnu o.fl.
Á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Keflavíkur segir:
Hjörtur er með UEFA B + KSÍ 5 stig, metabolicþjálfari og er nemi í íþrótta- og heilsufræði í HR. Hann hefur talsverða þjálfunarreynslu bæði úr yngri- og meistaraflokki. Hann á einnig farsælan feril sem meistaraflokksleikmaður með Keflavík, Skallagrími, Reyni Sandgerði og ÍR.
Óskar er með BSc í Íþróttafræði frá HR ásamt UEFA B + KSÍ 5 stig. Hann hefur talsverða reynslu við þjálfun yngri flokka hjá Keflavík, ÍBV, HK og Þrótti R., ásamt því var hann hluti af þjálfarateymi meistaraflokks kvenna hjá ÍBV til nokkurra ára.
Keflvíkingar segjast hafa miklar væntingar til komandi tímabils og þeir ætli að festa sig í sessi í deild þeirra bestu.