Nýtt Íslandsmet hjá Sindra
Arnar Helgi í þriðja sæti á Íslandsmótinu í bekkpressu
Kraftlyftingamaðurinn Sindri Freyr Arnarson frá Njarðvík, bætti enn einu Íslandsmetinu í safn sitt um helgina þegar Íslandsmótið í bekkpressu fór fram. Sindri sem er 22 ára keppir í -74 kg flokki fyrir Massa, en hann gerði sér lítið fyrir og lyfti 170 kg í bekknum og landaði Íslandsmeistaratitli.
Annar Massa-maður, Keflvíkingurinn Arnar Helgi Lárusson náði einnig góðum árangri á Íslandsmótinu, sem haldið var samhliða Reykjavík International Games. Arnar náði sínum besta árangri, þegar hann lyfti 140 kg sem dugðu honum í þriðja sæti í sama flokki og Sindri. Arnar er augljóslega fjölhæfur íþróttamaður, en hann er betur þekktur fyrir afrek sín í hjólastólaralli, þar hefur hann m.a. nælt sér í bronsverðlaun á Evrópumóti.
Hér að neðan má sjá kappana í bekkpressunni um helgina.