Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Nýtt félag aldrei fengið meiri fyrirgreiðslu
Mánudagur 30. nóvember 2009 kl. 13:16

Nýtt félag aldrei fengið meiri fyrirgreiðslu


Í ljósi þess að Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar (HKR) er ekki aðili að ÍBR má segja að aldrei hafi nýtt félag utan Íþróttabandalags Reykjanesbæjar fengið jafn mikla fyrirgreiðslu og aðstoð af hálfu Reykjanesbæjar. Þetta fullyrðir framvæmdastjóri Íþrótta- og tómstundasviðs í svari við fyrirspurnum Ólafs Thordersen, bæjarfulltrúa A-listans, vegna málefna HKR.

Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar hafði æfingaaðstöðu í Íþróttaakademíunni en var úthýst þaðan eftir að framkvæmdir hófust við breytingar á húsnæðinu fyrir skemmstu. Þar mun Fimleikafélag Keflavíkur hafa aðstöðu í framtíðinni. Í staðinn var félaginu úthlutað æfingatímum í íþróttahúsinu á Ásbrú. Forráðamenn félagsins eru ónægðir með að hafa engan heimavöll lengur. Haft var eftir yfirþjálfara yngri flokka HKR á dögunum að handboltafólki í Reykjanesbæ væri með þessu gert ljóst hvaða sess íþróttin skipaði í bæjarfélaginu.

Í svörum framkvæmdastóra ÍTR kemur m.a. fram að HKR hafi verið úthlutað styrk að upphæð 420 þúsund krónum vegna leigu á Ásbú frá byrjun september til ársloka 2009. Þá hafi til viðbótar þessari upphæð gjaldfærð notkun HKR í Íþróttaakademíunni numið rúmlega 900 þúsund krónum. Stjórn félagsins hafi verið úthlutað þar sérstöku herbergi auk þess að fá aðgang að þreksal og kennslustofum þar.
Þá er bent á að styrkir til félagsins 2008 og 2009 hafi numið 1,5 milljónum króna. Íþróttasalur Heiðarskóla hafi verið gerður að heimavelli meistaraflokks, 2. flokks og 4. flokks.

„Í ljósi þess að Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar (HKR) er ekki aðili að ÍBR má segja að aldrei hafi nýtt félag utan Íþróttabandalags Reykjanesbæjar fengið jafn mikla fyrirgreiðslu og aðstoð af hálfu Reykjanesbæjar,“ segir í svari Stefáns Bjarkasonar, framvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs.

HKR mun hafa sótt um aðild að Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar of seint og því var ekki hægt að samþykkja aðildarumsóknina á ársþingi bandalagsins sem fram fór 10. september.

Sjá nánar hér



Tengd frétt:
Handbolti í húsnæðishraki

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Íþróttaakademían í Reykjanesbæ sem nú verður fimleikahús.