Nýr Njarðvíkurkani kláraði Keflavík í frábærum nágrannaslag
„Þetta var alvöru nágrannaslagur og frábært hjá okkur að innbyrða sigur því þetta gat lent beggja megin,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, annar tveggja þjálfara Njarðvíkinga eftir sigur á nágrönnunum úr Keflavík í æsispennandi og skemmtilegum leik í Iceland Express deildinni í körfubolta í Ljónagryfjunni í kvöld. Framlengingu þurfti til og í lokin munaði aðeins tveimur stigum, 104-102 fyrir heimamenn.
Keflvíkingar skoruðu fimm fyrstu stigin í framlengingunni og keflvískir áhorfendur fögnuðu innilega. Heimamenn voru þó ekki á því að gefast upp og minnkuðu muninn en þegar hálf mínúta var til leiksloka var brotið á Giordan Watson, besta manni vallarins. Hann skoraði úr tveimur vítaskotum og kom Njarðvík yfir en þegar um 5 sekúndur voru til leiksloka unnu Keflvíkingar boltann þegar Njarðvík hóf sókn en Magnús Gunnarsson sem átti stórleik hjá Keflavík náði ekki að skora úr erfiðu færi og heimamenn unnu boltann aftur þegar um sekúnda var eftir. Þeir bættu við einu stigi frá vítalínunni og fögnuðu mikilvægum sigri 104-102.
Keflvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu góðu forskoti í upphafi en heimamenn hristu af sér slenið og minnkuðu muninn. Keflavík var tvö stig yfir eftir fyrsta leikhluta og leiddu með 43-45 í hálfleik. Í þriðja leikhluta var forysta fimm stig en þegar fimm mínútur voru eftir leiddu þeir með átta stigum 74-82. Njarðvíkingar gáfust ekki upp og voru betri á lokamínútunum og þegar flautan gall í lokin var jafnt með liðunum 93-93.
Njarðvíkingar voru undir megnið af leiknum og Keflvíkingar virtust allan tímann vera að fara að innbyrða sigur en heimamenn sýndu ljónseðlið í lokin og voru hungraðari. Þeir voru einnig með mann leiksins innanborðs, hinn nýja Bandaríkjamann í liðinu, Giordan Watson. Þessi snaggaralegi, smái en ótrúlega knái leikmaður skoraði 40 stig sem gerir nærri því annað hvert stig UMFN í leiknum. Keflvíkingar náðu ekki að verjast honum og fundu ekki rétta varnarleið. Hann náði hvað eftir annað að keyra sjálfur í gegnum miðja vörn Keflavíkur og skora. „Jú, hann var frábær og við erum mjög ánægðir með kappann. Hann verður okkur mikilvægur í lokabaráttunni og vonandi í úrslitakeppninni. Við stefnum þangað“ sagði Einar þjálfari.
Hörður Vilhjálmsson var þungur á brún og sagði leiðinlegt að tapa leiknum á þennan hátt. „Það er alltaf leiðinlegt að tapa en enn leiðinlegra að tapa gegn Njarðvík. Þeir voru betri í mikilvægu skotunum í lokin og því fór sem fór“.
Magnús Gunnarsson átti eins og fyrr segir stórleik hjá Keflavík og skoraði 30 stig. Hann er kominn í sitt besta form, léttari og lipari. Hörður Axel var líka góður og skoraði 22 stig og Andriia Ciric skoraði 17 stig. Þá skilaði Thomas Sanders 15 stigum en það var vont fyrir Keflvíkinga að missa hann útaf fyrir framlenginguna með fimm villur. Keflavík saknaði Gunnars Einarssonar sem var meiddur og Njarðvíkingar voru einnig án hins sterka Jonathan Moore vegna meiðsla. Watson títtnefndur var frábær og á án efa eftir að verða þeim dýrmætur í næstu leikjum en þetta var hans fyrsti leikur með liðinu. Guðmundur Jónsson var honum næstur með 24 stig og þá skoraði Nenad Tomasevic 13 stig. Aðrir voru undir tíu stigum.
Efsta mynd: Giordan Watson fór á kostum í liði Njarðvíkur og skoraði 40 stig.
Ljósmyndir - Siggi Jóns
Magnús Þór Gunnarsson átti stórleik fyrir Keflavík en hann var með 30 stig í leiknum.