Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Nýr formaður og ný stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur
Jón G. Benediktsson verðandi formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur. Mynd/JónÖrvar.
Þriðjudagur 6. október 2015 kl. 09:30

Nýr formaður og ný stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur

Jón G. Benediktsson er verðandi formaður. „Menn eru mjög spenntir“.

„Þetta er sveit veðhlaupahesta sem bíður eftir því að fá að hlaupa. Við lítum á þetta sem nýtt upphaf fyrir Keflavík og hlökkum mikið til. Menn eru ótrúlega spenntir,“ segir Jón G. Benediktsson verðandi formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur en boðað hefur verið til aukaaðalfundar deildarinnar á fimmtudag. Jón er eini frambjóðandinn til formannskjörs.

Allir núverandi stjórnarmenn knattspyrnudeildarinnar hafa ákveðið að hætta en þó hefur ekki verið tekin ákvörðun um framtíð Þorsteins Magnússonar, framkvæmdastjóra og núverandi formanns deildarinnar. Hann mun sinna því starfi áfram og vinna með nýrri stjórn.

Snemma á þessu ári sýndi hópur fólks áhuga á að taka við deildinni og bauð fram Baldur Guðmundsson sem formann. Núverandi stjórn var ekki tilbúin í breytingar og varðist þannig að formaður hélt velli á mjög fjölmennum aðalfundi. Margir hafa gagnrýnt hvernig staðið var að málum en Jón Ben er eini sem hefur boðið sig til formannsembættis og verður því sjálfkjörinn á fundinum. Með honum er vösk sveit manna sem hafa mikinn áhuga á framtíð knattspyrnunnar í Keflavík. Jón segir að þrátt fyrir að allir stjórnarmenn ætli að hætta sé góð sátt um þessar breytingar og margir þeirra sem hafa starfað hafi lýst yfir áhuga sínum á því að hjálpa áfram í starfinu.

Jón hefur verið í varastjórn deildarinnar í eitt og hálft ár og þekkir því vel til verka. Hann segir að átökin á síðasta aðalfundi hafi dregið örlítið úr mönnum sem hafi staðið sig vel í mörg ár, peningamál séu í ágætum málum og allir stefni sömu leið fyrir félagið.
„Það fer mikil vinna í það að ná í peninga til að reka svona deild. Við fengum góð viðbrögð fyrir gíróseðli sem sendur var til allra íbúa í Keflavík þó svo vissulega hafi það gerst á erfiðum tíma hjá liðinu í Pepsi-deildinni. Við höfum fengið fyrirspurnir frá Keflvíkingum úti á landi sem hafa viljað styrkja liðið og sumir hafa greitt hærri upphæð.“

En hvað segir verðandi formaður um nýja stöðu, Keflavík niður um deild og ekki lengur meðal bestu liða á landinu?
„Fyrsta verkefni nýrrar stjórnar verður að ráða þjálfara. Það er mjög mikilvægt að við fáum toppmann í þá stöðu. Við erum ekki byrjaðir í formlegum viðræðum við neina en þetta verður forgangsverkefni. Það eru allir sammála um eitt og það er að koma Keflavík aftur upp í deild þá bestu,“ segir Jón en vill ekki greina frá nöfnum kandidata í þjálfarastarfið. VF heyrði af nafni Bjarna Jóhannssonar sem þjálfaði KA stóran hluta sumars og Jón sagði það vera rétt en vildi ekki segja meira. Einnig munu Keflvíkingar hafa áhuga á Þorvaldi Örlygssyni, fyrrverandi atvinnumanni í Englandi en hann hefur m.a. þjálfað Fram hér heima.

Hvað leikmannamál segir Jón þau vera í góðu ferli, lang flestir leikmenn séu með samning við Keflavík. Áhugi er fyrir því að byggja upp sterkt framtíðarlið og góður grunnur sé í félaginu og góður árangur 3. og 2. flokks í sumar hafi sýnt að framtíðin er björt.

Nýir stjórnarmenn í knattspyrnudeild með Jóni verða Gunnar Oddsson, Karl Finnbogason, Hermann Helgason og Þorleifur Björnsson. Gunnar er fyrrverandi leikmaður og þjálfari liðsins og Karl lék með liðinu um árabil. Hermann hefur verið virkur í stjórn körfuknattleiksdeildar og Þorleifur leysir Hjördísi konu sína sennilega af hólmi en hún var í gömlu stjórninni. Jón segir að hópurinn sé sterkur og góðir aðilar komi einnig inn í varastjórn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024