Nýr formaður knattspyrnudeildar Þróttar
Haukur Harðarson var kosinn formaður knattspyrnudeildar Þróttar Vogum á aðalfundi deildarinnar í gærkvöldi. Á fundinum kom meðal annars fram í skýrslu stjórnar að árið hefði verið gjöfult en liðið komst upp um deild sl. haust og urðu breytingar á stjórninni en Friðrik Árnason sem verið hefur formaður deildarinnar síðustu árin gaf ekki kost á sér til formanns.
Nýr formaður, Haukur Harðarson, spilaði með meistaraflokki á sínum tíma og fór í gegnum barnastarfið hjá Þrótti. Aðrir í stjórn deildarinnar eru Davíð Arthur, Veigar Örn Guðbjörnsson og Marteinn Ægisson.
Fráfarandi formaður hafði þetta að segja í lok fundarins:
„Í lokin langar mér jafnframt að þakka öllum fyrir samstarfið sl. þrjú árin og líka þá fjölmörgu aðila sem allt og langt mál yrði að telja upp, sem starfað hafa í og með deildinni á árinu fyrir samstarfið. Ég geri mér fulla grein fyrir því að við erum öll með nóg á okkar könnum. En við skulum passa að hafa áfram gaman að því sem við erum að gera, hlúa að hvert öðru í félaginu og hvetja fólk áfram til góðra verka. Staldra aðeins við og njóta þess sem hefur verið í gangi undanfarin árin. Við erum komnir á kortið í knattspyrnunni og við höfum gefið félaginu okkar og Sveitarfélaginu Vogum frábæra auglýsingu.“