Nýjum gervigrasvelli fagnað
Nýr upphitaður og flóðlýstur gervigrasvöllur var formlega tekinn í notkun í Reykjanesbæ í síðustu viku. Völlurinn er vestan við Nettóhöllina sem er fjölnota knattspyrnuhöll. Það voru yngstu iðkendur knattspyrnu í Reykjanesbæ, í 7. flokki drengja og stúlkna frá knattspyrnudeildum UMFN og Keflavíkurvíkur, sem stilltu sér upp til myndatöku við nýja völlinn en síðan var dagskrá flutt inn í Nettóhöllina þar sem Reykjanesbær afhenti formlega íþróttafélögunum tveimur, Keflavík og UMFN, völlinn til afnota.
Gervigrasið er það besta sem völ er á í dag og völlurinn uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til knattspyrnuvalla í Evrópukeppnum. Völlurinn er í dag æfingavöllur en þegar byggð hefur verið áhorfendastúka og búningsaðstaða verður hægt að leika þar á Íslandsmótum í knattspyrnu. Forráðamenn UMFN og Keflavíkur lýstu yfir mikilli ánægju með þetta framfaraskref.
Knattspyrnufólk UMFN og Keflavíkur í 7. flokki stilltu sér upp á nýja gerfigrasvellinum.
Eva Stefánsdóttir, formaður íþróttaráðs Reykjanesbæjar, með formönnum knattspyrnudeildanna, Brynjari Frey Garðarssyni frá UMFN og Sigurði Garðarssyni frá Keflavík. VF-myndir: pket
Valdimar söng við vígslu vallarins.
Eigendur pípulagningafyrirtækisins JBÓ afhentu Keflavík og Njarðvík styrki sem formenn félaganna tóku við.