Nýir leikmenn til Njarðvíkinga
Njarðvíkingar hafa fengið nokkurn liðstyrk fyrir komandi átök í körfubolta karla að undanförnu. Hafa þeir einnig endurheimt tvo gamla leikmenn liðsins, þá Friðrik Erlend Stefánsson og Kristján Rúnar Sigurðsson, en gengið var frá því á dögunum. Bandaríkjamaðurinn Jeron Belin kemur svo til liðsins um miðjan september ásamt Marcus Van sem var samið við fyrr í sumar. Heimasíða UMFN greinir frá.
Jeron Belin er 198 cm framherji sem að lék með St. Peter´s háskólanum sem er einmitt úr sama riðli og Manhattan háskólinn sem Brenton Birmingham lék með á sínum tíma. Jeron útskrifaðist 2011 en hann var með 11,6 stig og tók 5,2 fráköst á lokaári sínu en St. Peter´s gerðu vel þetta ár og Jeron var MVP í sigurliði í MAAC-tournament.
Síðasta vetur lék Jeron svo á Möltu en þar var hann með 33,5 stig, tók 13,1 frákast, gaf 2,9 stoðsendingar, stal 3,1 boltum og varði 1,8 skot á leik.