Núna samkeppnishæf við fimleikafélögin á höfuðborgarsvæðinu
Glæsileg jólasýning á 30 ára afmæli Fimleikadeildar Keflavíkur. - video og myndir
Fimleikadeild Keflavíkur hélt glæsilega jólasýningu á dögunum en deildin á 30 ára afmæli í ár. Um 420 iðkendur æfa hjá deildinni og eru biðlistar langir.
Fimleikadeild Keflavíkur fagnaði á dögunum 30 ára afmæli sínu með glæsilegri jólasýningu. Mikið var í sýninguna lagt til að gera hana sem glæsilegasta úr garði. Þrír fyrrum iðkendur og þjálfarar, þær María Óladóttir, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir og Sigrún Gróa Magnúsdóttir skipulögðu sýninguna. „Þær voru í fyrstu hópunum sem kepptu á vegum deildarinnar og því var mjög gaman að þær skyldu skipuleggja jólasýninguna í ár,“ segir Halldóra Björk Guðmundsdóttir, formaður deildarinnar.
Fimleikadeildin hefur haldið jólasýningu árlega síðan 1986 og eru þær orðnar ómissandi hluti af undirbúningi jólanna hjá mörgum.
Nýja húsið breytti miklu
Iðkendur hjá fimleikadeildinni eru um 420 nú í vetur og eru langir biðlistar. Reyndar hafa alltaf verið biðlistar í fimleika frá stofnun deildarinnar. Í fyrra voru um 500 iðkendur en vegna skorts á þjálfurum og plássi hefur aðeins fækkað í hópnum. Halldóra segir nokkuð erfitt að finna fimleikaþjálfara til að bæta í hópinn. „Við erum með mjög góða þjálfara, 17 í heildina ýmist aðal- eða aðstoðarþjálfara. Þá erum við með fjóra þjálfara í fullu starfi, tvo frá Rússlandi sem eru yfir áhaldafimleikum kvenna, einn frá Íslandi sem er yfir hópfimleikum og annan sem sér um fimleika fyrir drengi.“
Árið 2010 fékk deildin húsnæði Akademíunnar við Krossmóa til afnota en hafði áður æft í íþróttahúsinu við Sunnubraut. Starfið hefur eflst mikið eftir að deildin fékk nýja húsnæðið. „Núna erum við samkeppnishæf við fimleikafélögin á höfuðborgarsvæðinu. Fimleikafólk frá okkur er nú í úrvalshópum Fimleikasambands Íslands,“ segir Halldóra. Í nýja húsnæðinu er allt sem til þarf til fimleikaiðkunar fyrir utan hópfimleikadansgólf og fara stúlkurnar í þeim hópum því til Reykjavíkur á æfingar einu sinni í viku. Vonir standa til að fimleikagólf standi iðkendum til boða á næstu árum. Að sögn Halldóru kostar slíkt gólf um tvær og hálfa milljón króna. Vandinn er að gólfið tekur mikið pláss í geymslu og kæmist ekki fyrir í Akademíunni nema hún yrði stækkuð.
Öflugt starf fyrir drengi
Lengi vel voru nánast aðeins stúlkur að æfa fimleika hjá deildinni enda var ekki aðstaða fyrir drengi. Það er nú breytt og hefur öflugt starf fyrir þá byggst upp á undanförnum árum og æfa hæfileikaríkir drengir þar undir stjórn Vilhjálms Ólafssonar. Nokkrir þeirra hafa keppt á mótum Fimleikasambands Íslands með góðum árangri. Deildin á nú öll þau áhöld sem til þarf til fimleika drengja og síðast í fyrra var fjárfest í bogahesti og hringjum sem löglegir eru til keppni.
Bæta starfið
Halldóra segir bjart framundan hjá deildinni á 30 ára afmælinu og er markmiðið að gera enn betur. „Við erum alltaf að bæta starfið og reyna að laða til okkar færa þjálfara. Við vinnum hörðum höndum að því að gera starfið faglegra og markvissara. Það hefur gengið virkilega vel og starfið er allt á uppleið hjá okkur.“
Nýtt verkefni, Special Olympics, hófst hjá fimleikadeildinni í haust og er fyrir fólk með fötlun. Í eldri flokknum eru iðkendur frá aldrinum 14 til 35 ára og í þeim yngri eru iðkendur frá 5 til 13 ára og segir Halldóra starfið fara vel af stað. Deildin hefur boðið upp á fimleika fyrir fullorðna og hafa námskeiðin verið misvel sótt. Stefnt er að því að fara aftur af stað með slíkt námskeið eftir áramót og því er tækifærið núna fyrir fólk á öllum aldri að láta fimleikadrauminn rætast.
Hér eru myndir frá jólasýningunni.