„Nú verður gamli gerður upp, betri en nýr“
Friðrik Stefánsson á batavegi eftir að hafa hnigið niður í leik gegn Haukum.
„Nóg að gera hjá heimakletti - símtöl og baráttukveðjur - blóm og kransar afþakkaðir því nú verður gamli gerður upp, betri en nýr,“ segir Örvar Þór Kristjánsson, þjálfari yngri flokka UMFN og vinur Friðriks Erlends Stefánssonar, leikmanns meistaraflokks UMFN, á Facebook síðu sinni.
Eins og fram kom í tilkynningu frá Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur í gær, hneig Friðrik niður í fyrsta leikhluta gegn Haukum B. Hann var þá kominn í hendur lækna til frekari skoðunar í Reykjavík.
Stjórn Kkd. UMFN vildi í leiðinni koma á framfæri þökkum til allra aðila sem komu að aðhlynningu Friðriks þegar mest á reyndi. Einnig voru sendar sérstakar þakkir til Haukamannsins Gulla Briem sem stjórnaði aðgerðum fyrir komu sjúkraflutningamanna og stóð sig eins og hetja. Áhorfendum, dómurum og andstæðingum var einnig þakkað fyrir auðsýndan skilning á aðstæðum.
Víkurfréttir senda Friðriki og fjölskyldu hans kærar óskir og batakveðjur.