Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 10. júní 1999 kl. 21:18

NÚ VERÐUR AÐ SÆKJA ÖLL STIGIN

Landssímadeildin rúllar aftur af stað á laugardag er Keflvíkingar fá fyrrverandi þjálfara sinn Inga Björn Albertsson og Valsmenn hans í heimsókn á kl. 14 og Grindvíkingar sækja Víkinga heim kl. 20 sama kvöld. Bæði liðin þurfa nauðsynlega á stigum að halda og mikilvægt að tapa sem fæstum stigum gegn þeim liðum sem eru á svipuðum stað í deildinni. Valsmenn mæta til leiks með „nýjan“ þjálfara við stjórnvölinn og leggur þingmaðurinn fyrrverandi örugglega ofuráherslu á að ná stigum í Keflavík, hvort heldur vegna stuttaralegs þjálfaraferils þar eða almenns stigaleysis Valsmanna. Grindvíkingar ætla sér eflaust að gera betur gegn Víkingum en nágrönnum þeirra tókst í 1. umferð og ná sér í leiðinni í betra sæti á stigatöflunni. Grindvíkingurinn Hjálmar Hallgrímsson verður í leikbanni gegn Víkingum. Hann sagði leikinn mikilvægan og sárt að missa af honum. „Þetta er einn af þeim leikjum sem má ekki tapast og mjög gott væri að fá öll þrjú stigin.“ Þú fékkst tveggja leikja bann vegna brottrekstrarins gegn ÍBV. Hvað voruð þið að eigast við þú og Steingrímur markahrókur? „Mér finnst þetta atvik alls ekki útheimta tveggja leikja bann. Ég var að hlaupa út á vinstri vænginn þegar Steingrímur hljóp í veg fyrir mig. Það var svo sem ekkert til að kvarta yfir og ég breytti einfaldlega um stefnu en þá hljóp hann aftur fyrir mig og hindraði mig í annað sinn. Ég hreitti í hann hvað hann væri eiginlega að reyna að gera og slæmdi svo opnum lófa aftan í hársvörðinn á honum. Dómarinn sá þetta og þegar hann nálgaðist hraut Steingrímur skyndilega í jörðina og engdist eins og hann hefði verið sleginn með hafnarboltakylfu. Brottrekstrinum mótmæli ég ekki því það er aldrei réttlætanlegt að slá til andstæðings í leik en tveggja leikja bann átti ég ekki skilið.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024