Nú eða aldrei!
Keflvíkingar taka á móti lettneska liðinu BK Riga í Evrópukeppninni í körfuknattleik í kvöld. Leikurinn er lokatækifæri Keflvíkinga til að komast upp úr riðli sínum, en til þess þurfa þeir að vinna upp 18 stiga forskot Lettanna úr fyrri leiknum.
Lykilatriði til að það takmark náist er að stuðningsmenn Keflavíkur fjölmenni í Sláturhúsið og láti vel í sér heyra. Ekkert er ómögulegt í körfuknattleik og víst er að leikmenn munu leggja sig alla fram.
Leikurinn hefst kl. 19:15 og verður frítt á leikinn fyrir börn á grunnskólaaldri sem taka einn fullorðinn með sér. Aðgangseyrir fyrir fullorðna er kr. 1000.