Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Miðvikudagur 6. mars 2002 kl. 09:19

Nökkvi Þór Íþróttmaður ársins í Sandgerði 2001

Nökkvi Þór Matthíasson taekwondomaður er íþróttamaður Sandgerðis árið 2001.
Kjörinu var lýst á hátíðlegri samkomu sem fór fram í gærkveldi í
Reynisheimilinu í Sandgerði.Nökkvi Þór vakti athygli á árinu sem einn af efnilegri taekwondomönnum
landsins. Í apríl varð hann Íslandsmeistari í -58 kg. flokki byrjenda 17 ára
og eldri. Í október fékk Nökkvi Þór silfur í -51 kg. flokki unglinga á Opna
írska meistarmótinu. Þá var hann kjörinn taekwondomaður Reykjanesbæjar árið
2001.

Taekwondo er ung íþróttagrein á Íslandi og ánægjulegt að ungur Sandgerðingur
skuli þar raða sér í fremstu röð. Árangur Nökkva Þórs Matthíassonar skýrist
af ástundun, áhuga og elju sem aðrir íþróttamenn geta tekið sér til fyrirmyndar.

Aðrir íþróttamenn sem voru tilnefndir til kjörs á íþróttamanni Sandgerðis
árið 2001 voru Gunnar Davíð Gunnarsson frá knattspyrnudeild Ksf. Reynis,
Magnús G. Sigurðsson frá körfuknattleiksdeild Ksf. Reynis og Sigurður
Jónsson frá Golfklúbbi Sandgerðis. Voru þeir allir heiðraðir af Sandgerðisbæ.

Þá veitti Íþrótta- og tómstundaráð Sandgerðisbæjar Freyju Sigurðardóttur og
Heiðari Sigurjónssyni sérstakar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur
á árinu 2001. Þau eiga það sameiginlegt að stunda íþróttagreinar sem standa
utan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Freyja Sigurðardóttir er óumdeild drottning fitnessíþróttarinnar á Íslandi.
Á árinu 2001 varð hún bæði Íslands- og bikarmeistari í IFBB-fitness og
jafnframt bikarmeistari í Galaxy-fitness. Freyja sýndi það að hún er kominn
í fremstu röð á heimsvísu þegar hún lenti í 15. sæti á heimsmeistaramótinu í
Brasilíu á síðasta ári. Freyja hefur margsýnt að hún er frábær fulltrúi
íþróttafólks úr Sandgerði.

Heiðar Sigurjónsson er án efa efnilegasti bridgespilarinn í Sandgerði og þó
víðar væri leitað. Hann hefur frá unga aldri stundað íþrótta sína með
Bridgefélaginu Munanum í Sandgerði. Á árinu 2001 varð Heiðar
Íslandsmeistari yngri spilara í sveitakeppni og átti sæti í landslið Íslands
sem varð Norðurlandameistari með yfirburðum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur
Heiðar spilað bridge í fjölda ára og hann sannar að þegar áhugi, ástundun og
hæfileikar fara saman er hægt að ná í fremstu röð.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024