Nokkrir leikmenn Keflavíkur eftirsóttir
Haraldur áfram með Reynismenn
Þrír fyrrverandi lykilleikmenn Keflvíkinga gætu verið við stjórnvölinn hjá knattspyrnuliðum í þremur efstu deildunum á næstunni. Þetta eru þeir Hólmar Örn Rúnarsson, Haraldur Guðmundsson og Guðmundur Steinarsson.
Hólmar Örn hefur verið ráðinn til Víðismanna og tekur við af enn öðrum félaga þeirra þremenninga úr sigursælu Keflavíkurliði, Guðjóni Árna Antóníussyni.
Fyrrverandi félagi Hólmars, Haraldur Freyr Guðmundsson mun halda áfram sem þjálfari Reynismanna en liðið vann 4. deildina í sumar. Vefsíðan fotbolti.net segir að Haraldur vilji halda í Magnús Þóri Matthíasson en hann var einn besti maður liðsins í sumar. Tveir fyrrum Reynismenn snúa heim en það eru þeir Birkir Freyr Sigurðsson sem var hjá Njarðvík og markvörðurinn Aron Elís Árnason frá Þrótti í Vogum.
Guðmundur Steinarsson, markahæsti leikmaður Keflavíkur og aðstoðarþjálfari Breiðablik hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá sínu gamla félagi sem mun leika í Inkasso-deildinni á næsta ári. Vefsíðan fotbolti.net greinir frá.
Vefsíðan segir einnig frá áhuga liða á leikmönnum Keflavíkur, að Grindvíkingar vilji fá Sindra K. Ólafsson, markvörð og nafna hans, Sindra Þór Guðmundsson bakvörð. Þá mun Marc McAustland, fyrirliði Keflavíkur vera eftirsóttur af toppliðum í Pepsi-deildinni.
Þá eru Grindvíkingar í þjálfaraleit en meðal þeirra sem hafa verið nefndir þar er m.a. Mathias Jack en hann lék með Grindavík í þrjú ár fyrir um áratug. Hann er í dag þjálfari varaliðs Fortuna Dusseldorf í Þýskalandi. Þá hefur nafn Óskars Hrafns Þorvaldssonar verið nefnt í þessu sambandi.