Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkurstúlkur völtuðu yfir Val
Miðvikudagur 16. nóvember 2011 kl. 22:39

Njarðvíkurstúlkur völtuðu yfir Val

Njarðvíkingar halda áfram góðu gengi sínu í Iceland Express-deild kvenna en þær sigruðu Valsstúlkur örugglega í kvöld, 100-77. Hjá Njarðvíkingum fór Lele Hardy hamförum en hún endaði leikinn með þrennu, 22 stig, 16 fráköst og 10 stoðsendingar.

Njarðvíkurkonur eru sjóðandi heitar þessa dagana og í kvöld fóru þær illa með gesti sína frá Hlíðarenda. Valsstúlkur áttu í vök að verjast allan leikinn og að þessu sinni áttu þær ekki roð í sprækar stúlkur úr Ungmennafélagi Njarðvíkur. Lokastaða leiksins 100 stig gegn 77, verðskuldaður sigur.

Leikurinn hófst hefðbundið þar sem bæði lið voru að skora grimmt og jafnt var með liðunum á fyrstu 5 mínútum leiksins. Þá hófu heimastúlkur að slíta sig frá og drifnar áfram af Petrúnellu Skúladóttir sem hreinlega fór hamförum í fyrri hálfleik og skoraði körfur í öllum regnbogans litum eða allt frá sniðskoti að myndarlegum fingraveltum. Það var þó aðallega sóknarleikur hennar sem vó þungt fyrir Valsstúlkur en strax eftir 20 mínútur hafði Petrúnella gert 17 stig. Njarðvík hafði í hálfleik gert 54 stig gegn 36 stigum gestanna.

Njarðvík hélt áfram að hamra stálið í seinni hálfleik og komust mest í 25 stiga forskot. Leikur Valskvenna fram að þessu var gríðarlega tilviljanakenndur og sóknin afar stirð. T.d. var María Ben Erlingsdóttir hvað eftir annað búin að finna sér góða fótfestu á blokkinni en án þess þó að sjá tuðruna í höndunum. Eitthvað sem hefði virkilega verið hægt að nýta sér þegar skotin fyrir utan voru ekki að detta. Ágúst Björgvinsson þjálfari Vals reyndi öll brögð í bókinni en ekki einu sinni hárblástursræða hans í einu leikhléinu virtist virka á lið Vals. Að því sögðu þá var hreinlega allt að ganga upp hjá Njarðvík. Síðasti fjórðungur var líkt og oft er sagt aðeins formsatriði fyrir Njarðvík að klára.

Hjá Njarðvík var sem fyrr segir Petrúnella Skúladóttir að spila gríðarlega vel í fyrri hálfleik og endaði hún leikinn með 22 stig, Lele Hardy var hinsvegar stigahæst með 23 stig.

Hjá Val var fátt um fína drætti en þeirra skástar þó voru Kristrún Sigurjónsdóttir og María Ben Erlingsdóttir.

Karfan.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024