Njarðvíkursigur í nágrannaslag körfunnar
lögðu Keflvíkingar í spennandi leik í Ljónagryfjunni 100-94
„Þetta var liðsheildin sem skóp þennan sæta sigur,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíking sem sigruðu granna sína úr Keflavík í spennandi leik í Dominos deildinni í körfubolta í Ljónagryjunni í kvöld. Lokatölur urðu 100-94.
Keflvíkingar byrjuðu með tveimur sirkuskörfum, troðslum og látum en heimamenn jöfnuðu sig fljótt á því og komust inn í leikinn með góðum körfum og leiddu 19-10 eftir 6 mín. leik. Njarðvíkingar voru sjálfstraustið upp málað með Elvar Friðriksson í fararbroddi en Einar Árni þjálfari sagði fyrir leikinn að eftir sigurhringu að undanförnu væri það staðreyndin. Að ekkert vantaði upp á sjálfstraustið og að hann treysti því að það myndi halda áfram í kvöld. Þeir bláklæddu rifu sig upp aftur og minnkuðu muninn áður en fyrsti leikhluti leið. Á síðustu sekúndu fyrsta leikhluta rataði þristur Ólafs Helga Njarðvíking í miðja körfuna, staðan því 25-20 eftir miklar sveiflur.
Njarðvíkingar voru áfram sannfærandi í öðrum leikhluta og virtust ákveðnari í aðgerðum sínum, drifnir áfram af ungu mönnunum, Elvari Má og Ólafi Helga. Dómararnir voru alltof glaðir með flauturnar og leyfðu ekki leiknum að fljóta nógu mikið. Svona nágrannaslagur þolir alveg meiri snertingar en dómararnir ætluðu greinilega ekki að leyfa of mikla hörku. Vítaskotin gengju mjög illa hjá Keflavík þar sem nýtingin var ekki nema um 50%. Njarðvíkingar náðu mest 14 stiga forskoti 49-35 og voru á mikilli siglingu á meðan lítið gekk hjá gestunum. Þeir hins vegar tóku á sig rögg í lok leikhlutans og náðu að minnka muninn með góðri spilamennsku. Staðan í leikhlé 49-45.
Magnús Gunnarsson kom heitur inn í síðari hálfleik með þrist og tvist og með körfu inn í teig frá Darrel Lewis var munurinn aðeins tvö stig 54-52.
Darrell hélt áfram, skoraði tvist og þrist og kom Keflavík yfir í fyrsta skipti í langan tíma. Þá sögðu heimamenn hingað og ekki lengra og tóku rispu með góðum körfum og komst aftur í forystu 65-57. Ótrúlegar sviptingar í skemmtilegum leik en þegar þrír leikhlutar voru að baki áttu heimamenn sjö stig uppi í erminni 83-76.
Bæði lið börðust eins og enginn væri morgundagurinn og spennan hélt áfram í lokaleikhlutanum. Þegar 3 mínútur voru til leiksloka voru heimamenn með 4 stiga forskot, en þegar 2 mín. voru eftir var jafnt 92-92. Það var ljóst að þetta gat farið á hvorn veginn sem var. Bara spurningin um taugarnar í blálokin. Elvar skoraði og kom Njarðvík í 97-94 þegar rúm mínúta var eftir. Þegar 30 sek. voru eftir mistókst Keflvíkingum að skora og heimamenn fengu boltann eftir að dæmt var uppkast. Tvö stig af vítalínunni hjá kom heimamönnum í 99-94 og svo fengu þeir vítaskot þegar 6 sek. voru eftir og heimasigur í höfn. Lokatölur 100-94 í spennandi og skemmtilegum leik.
Njarðvíkingar með sína ungu leikmenn voru mun meira sannfærandi sem sést kannski best á stigaskorinu þar sem ungu Njarðvíkingarnir voru stigahæstir hjá UMFN, þeir Elvar Már og Ólafur Helgi, með 44 stig af 100. Baráttan var mikil í liðinu og sjálfstraustið mun meira en hjá Keflvíkingum sem einhvern veginn treysta alltof mikið á útlendingana. Njarðvíkingur Elvar Már Friðriksson er orðinn einn besti leikmaðurinn í deildinni og ljóst að hans eldskírn fyrir tveimur árum þegar hann og fleiri ungir Njarðvíkingar tóku við keflinu á þeim bænum, hefur þroskað hann og hina mikið og gert þá að miklu betri körfuboltamönnum. Lykilmenn Keflavíkur úr bítlabænum, þeir Magnús Gunnarsson og Valur Valsson náðu sér ekki á strik.
Með sigrinum eru Njarðvíkingar komnir upp að hlið Keflvíkinga í deildinni.
Stigahæstir:
UMFN: Elvar 25, Nigel 25, Ólafur Helgi 19, Marcus 14, Hjörtur 7.
Keflavík: Darrell 30, Mike 23, Billy 19, Magnús G. 8, Valur 5.