Njarðvíkurmær setti Íslandsmet í ólympískum lyftingum
Alls voru ellefu Íslandsmet sett á móti í ólympískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum sem fram fór um síðastliðna helgi en Njarðvíkurmærin Sigurlaug Rúna Guðmundsdóttir var þar á meðal keppenda. Gerði hún sér lítið fyrir og setti þrjú Íslandsmet á mótinu í 63 kg flokki kvenna þegar hún snaraði 50kg, jafnhattaði 70kg og náði því 120kg samanlagt.
Sigurlaug er íþróttafræðingur að mennt en báðir foreldrar eru íþróttakennarar. Hún hefur stundað crossfit af miklum krafti undanfarin misseri og er greinilega í feiknarlegu formi.
Alls voru 11 Íslandsmet sett á mótinu eins og áður segir og því er um glæsilegan árangur að ræða hjá Sigurlaugu.
Hér má svo sjá stutt viðtal sem Víkurfréttir tóku við Sigurlaugu þegar hún var að útskrifast sem íþróttafræðingur.