Njarðvíkur stjörnuleikur til góðs
Föstudagskvöldið 21. desember fer fram sannkallaður stórleikur í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Þar munu mætast heimamenn í Njarðvík og stjörnum prýtt lið fyrrum leikmanna félagsins sem ýmist leika annarsstaðar eða hafa lagt skóna á hilluna. Þar er valinn maður í hverju rúmi og meðal þeirra sem ætla að taka fram skóna og spreyta sig eru leikmenn á borð við Teit Örlygsson, Ísak Tómasson, Friðrik Ragnarsson, Jeb Ivey, Brenton Birmingham og Loga Gunnarsson. Þjálfarar eru ekki af verri endanum en þeir Friðrik Ingi Rúnarsson og Gunnar Þorvarðarson munu halda um stjórnartaumana á liðinu sem samtals á að baki 51 Íslandsmeistaratitil.
Allur ágóði af leiknum rennur til l Líknarsjóðs Njarðvíkurkirkna. Aðgangseyrir á leikinn er 1000 krónur fyrir fullorðna og 500 krónur fyrir börn auk þess sem fólk getur styrkt gott málefni með frjálsum framlögum.