Njarðvíkingar verða ekki deildarmeistarar
Njarðvík tók á móti Val í næstsíðustu umferð Subway-deildar karla í körfuknattleik í gær. Mikið var undir en liðin voru jöfn að stigum á toppi deildarinnar og því deildarmeistaratitill í húfi. Spennustigið var hátt í Ljónagryfjunni en Valsmenn höndluðu pressuna betur og höfðu mikla yfirburði í leiknum sem lauk með 25 stiga sigri gestanna. Valur er því deildarmeistari í ár.
Stemmningin á pöllunum var vægast sagt góð enda vel mætt og Ljónagryfjan kjaftfull af stuðningsmönnum liðanna. Njarðvíkingar fóru illa af stað og Valsmenn og leiddu 15:23 efftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta náðu heimamenn að bíta frá sér og náðu frábærum kafla, þeir komust yfir skömmu fyrir hálfleik með þrist frá Mario Matasovic (43:41). Valur átti þó síðasta orðið fyrir hlé og leiddi með fimm stigum (46:51).
Njarðvíkingar fóru jafn illa af stað í seinni hálfleik og þeim fyrri og Valsarar náðu fljótlega að byggja upp gott forskot sem þeir létu aldrei af hendi. Sóknarleikur heimamenn var stirður og vantaði allt flæði í hann á meðan gestirnir létu boltann ganga hratt á milli manna og léku sér að vörn þeirra grænklæddu. Þegar öllu er á botninn hvolft þá var Valur langtum betra liðið í gær, sigur þeirra sanngjarn en Njarðvík hitti ekki á sinn dag.
Njarðvík - Valur 76:101
(15:23, 31:28, 14:23, 16:27)
Njarðvík: Mario Matasovic 15/6 fráköst, Logi Gunnarsson 14, Lisandro Rasio 12/7 fráköst, Nicolas Richotti 12/5 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 10, Haukur Helgi Pálsson 6/4 fráköst/5 stoðsendingar, Dedrick Deon Basile 5, Jose Ignacio Martin Monzon 2, Ólafur Helgi Jónsson 0, Oddur Rúnar Kristjánsson 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Jan Baginski 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni í gær og tók meðfylgjandi myndir sem má sjá í myndasafni neðar á síðunni.