Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar unnu ótrúlegan sigur á Haukum
Miðvikudagur 4. apríl 2012 kl. 21:27

Njarðvíkingar unnu ótrúlegan sigur á Haukum



Nú fyrir stundu lauk fyrsta leik Njarðvíkinga og Hauka í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta kvenna. Njarðvíkingar unnu ótrúlegan 75-73 sigur en Haukar voru með forystu nánast allan leikinn. Lele Hardy opnaði leikinn með þriggja stiga körfu fyrir heimamenn og spennan mikil í húsinu. Áhorfendur Hauka létu vel í sér heyra allt frá upphafi og þeir unnu auðveldlega baráttuna í stúkunni framan af leik. Þegar 1. leikhluti var hálfnaður leiddu Haukar 9 -10. Það var ekki mikið um varnarleik hjá liðunum báðum og Tierney Jenkins fór mikinn í byrjun leiks fyrir Hauka, en þar er á ferðinni illviðráðanlegur leikmaður sem olli Njarðvíkingum miklum vandræðum í leiknum. Leikurinn var hraður og leikmenn fengu að hlaupa nóg en staðan var 15-19 eftir 1. leikhluta, Haukar leiddu.

Vörnin var alls ekki nóg góð hjá Njarðvíkingum og stigaskorið dreifðist vel hjá Haukum í upphafi og það skildi liðin að. Njarðvíkingar voru að skjóta mikið fyrir utan og lítið skipulag virtist vera í sóknarleiknum. Jence Rhoads, hinn snjalli bakvörður Hauka fór í gang í leikhlutanum og var hún komin með 13 stig þegar Sverrir Þór þjálfari Njarðvíkinga tók leikhlé í stöðunni 20-30 og 4:30 voru til hálfleiks.  Njarðvíkingum tókst ekki að rétta úr kútnum í fyrri hálfleik og staðan var 27-39 og Haukar mun sterkari aðilinn í leiknum þegar hér var komið við sögu.

Í fyrri hálfleik voru Njarðvíkingar búnir að skjóta 15 þriggja stiga skotum og aðeins hitta úr tveimur. Það er ekki vænlegt til árangurs. Til samanburðar voru Haukar búnir að skjóta tvisvar fyrir utan og setja eitt skot niður. Lele Hardy var atkvæðamest með 13 stig hjá Njarðvík og Baker-Brice var með 8 í hálfleik. Fjórir leikmenn voru komnir á blað hjá Njarðvík. Rhoads og Jenkins voru öflugar hjá Haukum eins og áður segir. Jenkins var með 15 stig og 10 fráköst á meðan Rhoads var með 13 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar, en allt Njarðvíkurliðið var samtals með 5 stoðsendingar.

Njarðvíkingar fóru í svæðisvörn strax í upphafi síðari hálfleiks. Haukar héldu þó 10 stiga forystu og stemningin var öll á þeirra bandi, hvort sem það var á gólfinu eða á áhorfendapöllunum. Baker-Brice keyrði  upp hraðann hjá Njarðvík en aðrir leikmenn virtust ekki vera í takt við hana oft á tíðum. Þegar rúmar 2 mínútur voru eftir af 3. leikhluta þá var forysta Hauka orðin 15 stig og Njarðvíkingar hreinlega með allt niðrum sig. Undir lok fjórðungsins fékk Ólöf Helga dæmda á sig ásetningsvillu og Haukar fóru inn í síðasta leikhlutann með 14 stiga forystu, 46-60. Þá var allt útlit fyrir að Njarðvíkingar væru að missa leikinn úr höndum sér. Liðið hefur þó verið í þessari stöðu í ótal skipti á þessari leiktíð.

Shanae Baker-Brice hafði átt erfitt uppdráttar gegn Rhoads framan af leik en munurinn var enn 10 stig þegar 7 minútur voru til leiksloka. Baker-Brice skoraði þá af harðfylgi og fékk villu að auki og við það fóru Njarðvíkingar í gang. Hún minnkaði muninn í 7 stig og Njarðvíkingar unnu strax aftur boltann. Salbjörg Sævarsdóttir skoraði svo fyrir Njarðvík en hún átti flottan leik fyrir Njarðvík í kvöld og skoraði 13 stig.  Baker-Brice minnkaði muninn í 3 stig augnabliki síðar.

Allt ætlaði um koll að keyra í Ljónagryfjunni á þeim tímapunkti og áhorfendur stóðu á fætur. Þegar rúmar 3 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 61-65, Haukum í vil. Sami neistinn var ekki til staðar hjá heimamönnum og Haukar virtust ætla að halda þetta út. Baker-Brice hélt þó áfram að keyra að körfu Hauka og uppskar nokkrar ferðir á vítalínuna í staðinn. Njarðvíkingar hófu að pressa upp allan völlinn og það skilaði sér í því að Haukar náðu varla að koma boltanum inn. Lele Hardy kom svo Njarðvíkingum yfir þegar rúm mínúta var eftir en þá höfðu þær ekki leitt frá því að fyrsta karfan kom í hús.

Haukar skoruðu í næstu sókn en Hardy kom Njarðvík aftur yfir þegar 40 sekúndur voru eftir. Á hinum endanum stóðst Jenkins pressuna og setti niður stökkskot. 72-73 fyrir Hauka og Njarðvík átti boltann þegar 21 sekúnda var til leiksloka. Hardy fór svo sterkt að körfu Hauka og setti niður erfitt skot til að koma Njarðvíkingum aftur yfir þegar 13 sekúndur voru eftir. Haukum mistókst svo þriggja stiga skot og Hardy náði að klófesta boltann. 4 sekúndur eftir og Haukar brutu á Ólöfu Helgu fyrirliða Njarðvíkinga. Hún setti niður annað vítaskot sitt og Njarðvíkingar unnu tveggja stiga sigur í ótrúlegum leik.

Njarðvíkingar sýndu ótrúlega baráttu og höfðu alltaf trú á því að þær gætu komið aftur þrátt fyrir að útlitið væri svart á köflum.


Stigin:

Njarðvík: Lele Hardy 33/18 fráköst, Shanae Baker-Brice 18/11 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir 13/6 fráköst, Ólöf Helga Pálsdóttir 5/6 fráköst, Petrúnella Skúladóttir 4, Ína María Einarsdóttir 2, Andrea Björt Ólafsdóttir 0, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 0/4 fráköst, Harpa Hallgrímsdóttir 0/5 fráköst, Eyrún Líf Sigurðardóttir 0, Erna Hákonardóttir 0, Ásdís Vala Freysdóttir 0.

Haukar: Tierny Jenkins 30/17 fráköst, Jence Ann Rhoads 22/8 fráköst/10 stoðsendingar/4 varin skot, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 10, Gunnhildur Gunnarsdóttir 5/4 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 4, Sara Pálmadóttir 2/3 varin skot, Sólrún Inga Gísladóttir 0, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Ína Salóme Sturludóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0, Lovísa Björt Henningsdóttir 0.

Ína María Einarsdóttir reynir að finna smugu á vörn Hauka.




Tveir af bestu leikmönnum deildarinnar, Hardy og Jenkins.

Myndir Páll Orri/Texti Eyþór Samundsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024