Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar unnu granna sína í Garðinum
Útlitið er farið að dökkna fyrir Hólmar Örn Rúnarsson, þjálfara og leikmann Víðis, og liðsfélaga hans. VF-mynd: Hilmar Bragi.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 23. september 2020 kl. 20:56

Njarðvíkingar unnu granna sína í Garðinum

Njarðvík lék gegn Víðismönnum á Nesfiskvellinum í dag í 2. deild karla. Liðin heyja hvort sína baráttu, Njarðvíkingar eru að berjast um sæti í Lengjudeildinni á meðan Víðir eru komnir í alvarlega fallbaráttu. Það voru þeir grænklæddu sem sigruðu 2:1 og eru í fjórða sæti deildarinnar, aðeins einu stigi frá Þrótti og Selfossi. Víðir er hins vegar í þriðja neðsta sæti og skilur aðeins tvö stig þá og Völsung að, Víðir á þó einn leik til góða.

Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn betur þegar Bergþór Ingi Smárason skoraði fyrsta mark leiksins og kom Njarðvík yfir (8').

Njarðvíkingar voru svo aftur á ferðinn í upphafi seinni hálfleiks þegar Ivan Prskalo kom þeim í 2:0 (48').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nathan Ward gaf Víðismönnum smá vonarglætu tíu mínútum fyrir leikslok þegar hann minnkaði muninn í 2:1 en lengra komust heimamenn ekki.

Staða Víðismanna er orðin grafalvarleg því botnlið Völsungs vann sinn leik og því er orðið minni munur á botni deildarinnar.

Njarðvíkingar komust nær í baráttunni um sæti í Lengjudeildinni því topplið Kórdrengja sigraði Selfoss, sem er í öðru sæti.

Njarðvík lék í dag án fyrirliða síns, Marc McAusland, en hann tekur út tveggja leikja bann fyrir brot í leik gegn Kára þann 13. september. Þá lét hann skapið hlaupa með sig í gönur og gaf leikmanni Kára olnbogaskot. Dómurunum yfirsást brotið en upptaka af atvikinu, sem hlaðvarpið Ástríðan birti á Twitter-síðu sinni, varð til þess að aganefnd KSÍ dæmdi skotann í keppnisbann.

Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Nesfiskvellinum og tók meðfylgjandi myndir.

Víðir - Njarðvík | 2. deild karla 2020