Njarðvíkingar unnu fyrstu viðureignina gegn Haukum
Njarðvíkingar hefja úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki frábærlega en fyrsta viðureign Njarðvíkur og Hauka fór fram í Hafnarfirði í kvöld. Eftir jafnan og spennandi leik fór að lokum svo að Njarðvík hafði ellefu stiga sigur, 59:70, og leiðir því einvígið um Íslandsmeistaratitilinn 1:0. Næsti leikur liðanna fer fram í Ljónagryfjunni á föstudagskvöld og hefst klukkan 19:15.
Haukar - Njarðvík 59:70
(14:17, 14:9, 19:18, 12:26)
Njarðvíkingar hófu leikinn betur og leiddu eftir fyrsta leikhluta með þremur stigum (14:17). Sóknarleikur þeirra hikstaði aðeins í öðrum leikhluta og Haukar gerðu vel, komust yfir og fóru með tveggja stiga forystu inn í hálfleikinn (28:26). Þriðji leikhluti var mjög jafn og liðin skiptust á forystunni. Njarðvík byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og komst fjórum stigum yfir (29:33) en þá komu tíu stig í röð frá Haukum og þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 47:44 fyrir Haukum.
Þegar fjórði leikhluti fór af stað voru Njarðvíkingar þremur stigum á eftir en þær jöfnuðu fljótlega (47:47) og þegar fór að síga á seinni hluta leikhlutans settu þær grænklæddu í fluggírinn og stigin hrönnuðust upp án þess að Haukar fengju rönd við reist. Að lokum sætur ellefu stiga sigur á erfiðum útivelli og Njarðvíkingar hafa tekið forystuna í baráttunni um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik.
Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 31/20 fráköst/3 varin skot, Lavína Joao Gomes De Silva 15/5 fráköst, Diane Diéné Oumou 9/4 fráköst/3 varin skot, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 7, Helena Rafnsdóttir 6, Vilborg Jonsdottir 2/5 fráköst/5 stoðsendingar, Dzana Crnac 0, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Jóhanna Lilja Pálsdóttir 0, Kamilla Sól Viktorsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.