Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar unnu bitlausa Sandgerðinga
Föstudagur 27. júlí 2012 kl. 09:06

Njarðvíkingar unnu bitlausa Sandgerðinga

 

Suðurnesjaliðin Reynir og Njarðvík í 2. deild karla í knattspyrnu mættust í glampandi sól á N1-vellinum í Sandgerði í gær. Reynismenn voru líflegir á fyrstu mínútunum en voru heldur betur slegnir út af laginu þegar gestirnir úr Njarðvík skoruðu í sinni fyrstu sókn þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum og var Ólafur Jón Jónsson þar á ferðinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við markið var sem slökknaði á heimamönnum og Njarðvíkingar létu kné fylgja kviði og bættu við marki um miðjan fyrri hálfleikinn. Reyndar sá Reynismaðurinn Aron Örn Reynisson um að skora en hann varð fyrir því ólani að skalla knöttinn í eigið mark. Stuttu síðar fékk Reynir réttilega víti þegar varnarjaxlinn Einar Marteinsson hrinti Grétari Ólafi Hjartarsyni inn í vítateig. Egill Jóhannsson fór á vítapunktinn en Vignir Jóhannesson í marki Njarðvíkur varði spyrnu hans örugglega. Mínútu síðar náðu Reynismenn hins vegar að minnka muninn.

Jóhann Magni Jóhannsson átti þá góða sendingu inn fyrir vörn Njarðvíkinga sem Guðmundur Gísli Gunnarsson tók vel á móti og afgreiddi í netið. Jöfnunarmark heimamanna virtist liggja í loftinu en þeim gekk erfiðlega að komast í gegnum þétta vörn þeirra grænklæddu. Í stað þess að liðin færu jöfn inn í leikhléið bættu Njarðvíkingar við marki á lokamínútu fyrri hálfleiks. Þeir fengu aukaspyrnu á vinstri kantinum og upp úr henni kom fyrirgjöf sem endaði hjá Ólafi Jóni Jónssyni sem afgeiddi boltann í netið af stuttu færi.

Í síðari hálfleik léku Reynismenn með sólina og örlitla golu í bakið og var Guðmundur Gísli Gunnarsson nálægt því að minnka muninn eftir fallegt einstaklingsframtak á 48. mínútu. Gestirnir voru staðráðnir í að halda forystunni og settu upp þéttan varnarmúr aftarlega á vellinum sem heimamenn áttu erfitt með að brjótast í gegnum. Það þurfti hnitmiðað langskot frá Grétari Ólafi Hjartarsyni til að minnka muninn í 2-3 þegar um 20 mínútur voru til leiksloka, en hann sá þá að Vignir markvörður var illa staðsettur og sneri knöttinn fallega fram hjá honum af rúmlega 20 metra færi. Þrátt fyrir að fjölga sóknarmönnum á vellinum náði Reynisliðið ekki að skapa sér fleiri teljandi færi það sem eftir lifði leiks. Njarðvíkingar stilltu upp átta manna varnarmúr á eigin vítateig og þar var Einar Marteinsson manna sterkastur í að tryggja að Reynismenn kæmust ekki að markinu.

Niðurstaðan var sanngjarn 2-3 sigur Njarðvíkinga sem fögnuðu vel að leik loknum. Reynisliðið þarf hins vegar að finna aftur neistann frá því fyrr í sumar ef það ætlar að halda sér áfram í toppbaráttu 2. deildar.

Umfjöllun Reynir.is