Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar töpuðu gegn Stjörnumönnum í bragðdaufum leik
Föstudagur 2. mars 2012 kl. 10:30

Njarðvíkingar töpuðu gegn Stjörnumönnum í bragðdaufum leik



Stjörnumenn tóku á móti ungu liði Njarðvíkinga á heimavelli sínum, Ásgarði, í gær. Fyrir leikinn voru Stjörnumenn í öðru til fimmta sæti en Njarðvíkingar sátu í því áttunda, en Suðurnesjamenn eiga í harðri baráttu við Fjölni og ÍR um síðasta sætið í úrslitakeppninni þetta árið. Bæði lið þurftu því á stigunum tveimur að halda.
Leikurinn var nokkuð rólegur til að byrja með og bæði lið skiptust (eða skiptust ekki) á stigum. Í stöðunni 4-6 fyrir Njarðvík slokknaði hins vegar algerlega á gestaliðinu. Garðbæingar skoruðu 16 stig í röð á Njarðvíkinga og voru skyndilega komnir í fjórtán stiga forystu, 20-6. Heimamenn kláruðu leikhlutann með þægilega 15 stiga forystu, 25-10, en Njarðvíkingar virtust algerlega heillum horfnir.

Hlutskipti varð með liðunum í öðrum leikhluta, sem fer seint ef nokkurn tímann í sögubækurnar. Njarðvíkingar skiptu yfir í svæðisvörn sem virkaði eins og kryptonít á Stjörnumenn. Þó svo að Njarðvíkingar hafi ekki verið að bjóða upp á neina sýningu í sóknarleik sínum að þá náðu þeir þó að klóra fram fleiri stig en heimamenn og löguðu stöðuna allverulega sér í hag. Í hálfleik var staðan 33-27, sem þýðir að Stjörnumenn skoruðu einungis átta stig í öðrum fjórðung.

Þó að Stjörnumönnum hafi tekist að hrista af sér slenið í sókninni að þá var þriðji leikhluti langt frá því að vera góður. Bæði lið gerðu sig sek um klaufaleg mistök í bæði vörn og sókn og leikurinn var alls ekkert augnakonfekt. Njarðvíkingar náðu að jafna leikinn í seinni hluta fjórðungsins í fyrsta sinn síðan í stöðunni 6-6, en náðu þó ekki að komast yfir, fyrir einstakan klaufaskap. Stjörnumenn gengu þá á lagið og náðu að klára fjórðunginn með fimm stiga forystu, 52-47. Þó var Páll Kristinsson farinn út af í liði gestanna með fimm villur, svo ljóst var að Suðurnesjamenn þyrftu á öllu sínu að halda.

Eftir þetta náðu heimamenn að sigla leiknum í höfn. Justin Shouse og Renato Lindmets tóku til sinna ráða og náðu að koma nokkrum stigum á töfluna, auk þess sem Keith Cothran stóð sig vel í vörninni og náðu fráköstum á mjög mikilvægum augnablikum, en Cothran átti þó ekki sinn besta leik í sókninni líkt og flestir aðrir. Lokatölur í þessum skraufþurra leik voru 74-61, heimamönnum í vil sem sitja því í öðru sæti deildarinnar ásamt Keflvíkingum. Njarðvíkingar eiga þó ennþá í hörkubaráttu við Fjölnismenn um 8. sæti deildarinnar.

Stigahæstur heimamanna var Renato Lindmets með 21 stig en Lindmets bætti 10 fráköstum í sarpinn. Stigahæstur gestanna var Cameron Echols með 24 stig, og Travis Holmes setti 18, en þeir félagar voru allt í öllu í sóknarleik gestanna.

Njarðvík: Cameron Echols 24/6 fráköst, Travis Holmes 18/7 fráköst/4 varin skot, Elvar Már Friðriksson 11/6 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 3/5 fráköst, Styrmir Gauti Fjeldsted 2/8 fráköst, Páll Kristinsson 2, Oddur Birnir Pétursson 1/5 fráköst

Umfjöllun Karfan.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024