Njarðvíkingar töpuðu gegn KR á heimavelli – 20 stiga munur
Sjóðheitir KR-ingar komu í Ljónagrifjuna í kvöld og sigruðu Njarðvík nokkuð örugglega í Iceland Express deild karla en mikill vandræðagangur var hjá leikmönnum Njarðvíkur og endaði leikurinn 71-91. KR hefur því komið sér í annað sæti deildarinnar en Njarðvíkingar sitja eftir í níunda sæti með 12 stig, einu sæti frá úrslitakeppni.
KR byrjaði leikinn af krafti og komust strax yfir á fyrstu mínútu en Njarðvíkingar voru gjörsamlega týndir í bæði varnar- og sóknarleik. Pavel Ermolinskij og Marcus Walker voru allt í öllu hjá KR og erfiðir viðureignar. Í lok fyrri hálfleiks var leiktíminn að renna út en Pavel gerði sér lítið fyrir og skoraði flautukörfu, 3 stig fyrir KR og Njarðvíkingar fóru inní klefa með skottið á milli lappanna enda 25 stigum undir þegar leikurinn var hálfnaður.
Njarðvíkingar mættu ferskari til seinnihálfleiks og Óli Ragnar Alexandersson kom inná til að leysa Nenad Tomasevic af og gerði það glæsilega, ungur og efnilegur sá. Það dugði þó ekki til og héldu Vesturbæingarnir góðu forskoti út leikinn en lokatölur urðu 71-91 eða 20 stiga sigur hjá KR-ingum.
Marcus Walker var stigahæstur í leiknum með 21 stig en honum stutt á eftir kom Pavel Ermolinskij með 19 stig, 9 stoðsendingar og 9 fráköst.
Stigahæstur hjá Njarðvík var Jóhann Árni Ólafsson með 19 stig og 4 stoðsendingar. Honum á eftir kom Melzie Jonathan Moore með 15 stig, Páll Kristinsson með 11 stig og Christopher Smith með 8 stig.
Fleiri myndir frá leiknum er hægt að skoða í ljósmyndasafni Víkurfrétta með því að smella hér.
VF-Myndir: Siggi Jóns
Jóhann Árni Ólafsson var bestur í liði Njarðvíkinga í kvöld en hann setti 19 stig fyrir þá grænu.