Njarðvíkingar töpuðu fyrir vestan
Njarðvíkingar máttu þola ósigur í Iceland Express-deild karla í körfubolta gegn botnliði KFÍ á útivelli fyrr í kvöld. Jafnræði var með liðunum nær allan leikinn og staðan var 50-49 í hálfleik fyrir heimamenn. Áfram var leikurinn jafn en KFÍ hafði alltaf yfirhöndina og Njarðvíkingar eltu.
Í fjórða leikhluta urðu svo kaflaskipti og Ísfirðingar náðu upp öruggu forskoti sem Njarðvíkingar náðu aldrei að minnka fyrr en alveg í blálokin og lokatölur 102-97 Ísfirðingum í vil. Hjá Njarðvík var Jóhann Árni Ólafsson stigahæstur með 31 stig og 8 fráköst. Giordan Watson var með 24 stig og Jonathan Moore með 23. Aðrir leikmenn voru talsvert frá sínu besta. Njarðvíkingar sitja í 7. sæti eftir leikinn, tveimur stigum á undan Haukum sem eiga leik til góða gegn Stjörnunni á morgun.
[email protected]