Njarðvíkingar teknir í bakaríið af Haukum
Njarðvíkingar áttu hræðilegan dag á knattspyrnuvellinum í kvöld þegar þeir tóku á móti Haukum á Rafholtsvellinum í Njarðvík í Inkasso-deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Fyrri hálfleikurinn er eitthvað sem heimamenn vilja gleyma sem fyrst. Áður en dómarinn hafði flautað til hálfleiks höfðu gestirnir skorað fjögur mörk.
Haukar skorðuðu fyrsta markið á 16. mínútu og svo komu mörkin með tíu mínútna millibili og engu líkara en Njarðvíkingar væru að upplifa martröð.
Heimamenn voru bara alls ekki góðir í fyrri hálfleik en hafa greinilega fengið hárblásara í hálfleik því þeir mættu frískir til síðari hálfleiks og skoruðu fljótlega og sýndu allt annan leik en þeir höfðu boðið uppá fyrstu 45 mínúturnar.
Ekki tókst Njarðvíkingum að bæta við marki og þurftu að horfa upp á fimmta mark Hauka í uppbótartíma. Fimm tapleikir í röð og útlitið er svart. Njarðvíkingar eru í fallsæti og aðeins með sjö stig eftir níu umferðir.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson