Njarðvíkingar tefla fram ungum og spennandi leikmanni í kvöld gegn Keflavík
Keflavík tekur á móti Njarðvík í Blue-höllinni í kvöld þegar nágrannarnir mætast í annarri umferð Bónusdeildar kvenna.
Njarðvík byrjaði mótið vel og vann góðan sigur á Grindavík í fyrstu umferð á meðan Íslandsmeistarar Keflavíkur töpuðu fyrir Stjörnunni. Það má því búast við hörkuleik í kvöld.
Bo Guttormsdóttir-Frost í Njarðvík
Bo Guttormsdóttir-Frost hefur gengið til liðs við kvennalið Njarðvíkur en Bo hefur spilað allan sinn yngriflokkaferil með Stjörnunni og iðulega verið viðriðin yngri landsliðin og nú síðast á mála hjá liði Valencia á Spáni. Bo er aðeins sextán ára gömul og hluti af sterkum 2008 árgangi, hún bætist því í hóp fleiri landsliðsmanna sem eru einnig í Njarðvíkurliðinu.
„Bo er ungur og spennandi leikmaður sem kemur til með að styrkja sterkan hóp enn frekar í baráttunni. Hún bæti auðvitað upp á sentimetrana hjá okkur þar sem að hún er hávaxinn leikmaður og einnig fjölhæf á boltann,“ segir Einar Árni Jóhannsson, þjálfari kvennaliðsins, þegar gengið var frá samningi við leikmanninn.
„Ég tel þetta vera rétt skref fyrir minn feril akkúrat núna,“ sagði Bo í samtali við UMFN.is. „Liðið er sterkt, aðstaðan stórglæsileg og ég hef trú á að Njarðvík geti barist um titla í vetur. Ég legg mig 120% í þau verkefni sem ég fæ í hendurnar og vonandi hjálpa liðinu að ná eins hátt og hægt er.”