Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar tapa óvænt í Ljónagryfjunni
Laugardagur 12. mars 2005 kl. 00:32

Njarðvíkingar tapa óvænt í Ljónagryfjunni

Óvænt úrslit urðu í kvöld þegar Njarðvíkingar töpuðu á heimavelli gegn ÍR-ingum 101-106 í fyrstu viðureign liðanna í átta liða úrslitum.

Alvin Snow og Doug Wrenn spiluðu sinn fyrsta leik í kvöld fyrir Njarðvíkinga. ÍR-ingar byrjuðu betur og komust í 9-17. Doug Wrenn var kominn með þrjár villur eftir um fimm mínútna leik og spilaði lítið það sem lifði eftir af fyrri hálfleik. Alvin Snow var að spila frábæran bolta fyrir Njarðvíkinga og mataði hann félagana í gríð og erg með frábærum sendingum. Páll Kristinsson var atkvæðamikill fyrir Njarðvíkinga í byrjun og leituðu Njarðvíkingar mikið af honum inn í teig. Alvin Snow var að sýna frábæra takta og virkilega að skemmta áhorfendum með frábærum sendingum af ýmsum toga. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 29-22 fyrir Njarðvík.

Njarðvíkingar réðu illa við Theo Dixon í byrjun annars leikhluta, og með góðri vörn náðu ÍR-ingar að komast yfir 29-30. Halldóri Karlssyni var þá nóg boðið og setti niður þriggja stiga körfu og Brenton Birmingham fylgdi fyrirliðanum eftir og kom Njarðvík í 35-30. Sóknarleikur Njarðvíkinga var að ganga ágætlega upp í fyrri hálfleik en varnarleikur liðsins var ekki upp á marga fiska. Theo Dixon fékk sína þriðju villu eftir að fimm mínútur lifðu af þriðja leikhluta. Njarðvíkingar misstu aðeins dampinn en Halldór Karlsson barðist eins og ljón á vellinum og var að velja góð skot. Alvin Snow var með sýningu í fyrri hálfleik og greinilegt að þarna er um gæða leikmann að ræða. ÍR-ingar komust yfir 54-55 en Egill Jónasson skoraði síðustu fjögur stig fjórðungsins og kom Njarðvíkingum í 58-55 þegar leikmenn héldu til búningsklefa.

Þriðji leikhluti byrjaði með þriggja stiga körfu Eiríks Önundarsonar fyrir ÍR-inga, en Eiríkur hafði verið rólegur í leiknum framan af. Njarðvíkingar héldu alltaf forskoti í leiknum en náðu aldrei að hrista ÍR-ingana af sér. ÍR-ingar fengu mikið pláss fyrir utan teig Njarðvíkinga og þeir Theo Dixon, Eiríkur Önundarson og Ólafur Sigurðsson nýttu sér það óspart. Njarðvíkingar fengu vítarétt snemma í þriðja leikhlutanum og voru mikið á vítalínunni en voru með afleidda nýtingu á línunni. Leikurinn var í járnum allan þriðja leikhlutann og staðan í lok hans 79-76 Njarðvíkingum í vil.

Brenton Birmingham gaf tóninn fyrir síðasta leikhluta með þriggja stiga körfu, en vörn Njarðvíkinga gaf alltof mikið færi á sér og var hún mjög brothætt. ÍR-ingar eiga mikið af góðum skyttum og nýttu þeir sér hiklaust lekann í vörn Njarðvíkinga. ÍR-ingar ná að komast yfir 82-84, en þá virtist Njarðvíkurljónið vera vaknað og skoruðu Njarðvíkingar átta stig í röð 90-84. ÍR-ingar koma þá með frábæran kafla og komast yfir 92-93. Öll stemmning virtist vera í liði ÍR-inga og Njarðvíkingar gáfu þeim alltof mikið pláss og tíma til að athafna sig í skotum sínum. Þegar mínúta lifði leiks var staðan 95-100 fyrir ÍR-inga. Njarðvíkingar reyndu að brjóta á lokasekúndunum en Eiríkur Önundarsson var öruggur á vítalínunni og ÍR-ingar uppskáru sigur 101-106.

Stigahæstur hjá Njarðvík var Alvin Snow með 23 stig og 12 fráköst. Brenton Birmingham var með 20 stig og Páll Kristinsson 19. Doug Wrenn fékk snemma þrjár villur og komst aldrei í takt við leikinn en endaði með 13 stig. Halldór Karlsson spilaði aðeins 17 mínútur í leiknum en skoraði 11 stig og kom með mikla baráttu inn í Njarðvíkurliðið. Friðik Stefánsson lét ekki mikið til sín taka í sókninni en tók 16 fráköst í leiknum. Alvin Snow var virkilega góður fyrir Njarðvíkinga í kvöld og sýndi oft frábær tilþrif.

Hjá ÍR-ingum var Theo Dixon stigahæstur með 22 stig og Eiríkur Önundarsson var með 21 stig. Grant Davis var gríðarlega öflugur í liði ÍR-inga með 19 stig og 19 fráköst og Ólafur Sigurðsson var með 16 stig.

Einar Árni, þjálfari Njarðvíkinga var þungur á brún eftir leikinn "Auðvitað er sárt að tapa og svekkjandi að fá á sig 106 stig á heimavelli, varnarleikurinn brást í dag og fráköstin líka, við vorum bara einfaldlega mjög lélegir". Aðspurður um nýju Bandaríkjamennina var Einar sáttur við leik Alvin Snow en sagði að Wrenn hafi fengið fljótlega þrjár villur og ekki komist almennilega inn í leikinn. Um leikinn í Seljaskóla á sunnudag ætlaði Einar að mæta með menn sína tvíeflda til leiks"Við ætlum ekkert að gefa þetta frá okkur, við ætlum að berjast og vinna heimaleikinn aftur".

Tölfræði leiksins

 

VF-Myndir:/Hilmar Bragi

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024