Njarðvíkingar taka á móti Keflvíkingum
Í kvöld fara fram þrír leikir í Dominos-deild kvenna í körfubolta. Helst ber þar að nefna grannaslag Njarðvíkur og Keflavíkur, en liðin mætast í Ljónagryfjunni í kvöld. Keflvíkingar eru ósigraðir á toppnum eftir fjórar umferðir. Njarðvíkingar hafa sigrað tvo leiki og tapað tveimur, en þær eru í fjórða sæti deildarinnar.
Eins og alltaf þegar þessi lið mætast verður barist til síðustu sekúndu og má búast við mikilli stemningu. Leikurinn hefst klukkan 19:15. Vert er að minnast á það að karlalið Njarðvíkur og Keflavíkur eigast svo við á sama stað á morgun. Sá leikur verður líklega ekki síður spennandi.
Grindvíkingar leika svo gegn Hamarskonum í kvöld en sá leikur fer fram í Hveragerði.