Njarðvíkingar sóttu sigur í Grindavík
Njarðvíkingar virðast hafa jafnað sig eftir tapið gegn Keflvíkingum á mánudaginn, en þeir unnu 11 stiga sigur á Grindvíkingum á útivelli í kvöld í Domino's deild karla. Njarðvíkingar voru mun betri aðilinn í fyrri háfleik og voru með 32-46 forystu þegar honum lauk. Grindvíkingar, með Ólaf Ólafsson í broddi fylkingar, komu fílefldir til baka í þriðja leikhluta og náðu forystu eftir frábæran leikkafla. Njarðvíkingar buguðust ekki undan álaginu og sýndu sparihliðarnar aftur á lokasprettinum. Þeir lönduðu að lokum nokkuð öruggum sigri eftir áhlaup Grindvíkinga.
Þeir Dustin og Logi fóru fyrir Njarðvíkingum, en Dustin skoraði 30 stig og tók auk þess 15 fráköst. Hjá Grindvíkingum var Ólafur frábær í síðari hálfleik og hélt Grindvíkingum inn í leiknum. Grindvíkingar léku með nýjan Kana í leiknum en sá virtist ennþá þjást af flugþreytu. Hann komst þó ágætlega frá sínu.
Grindavík-Njarðvík 74-85 (18-24, 14-22, 27-12, 15-27)
Grindavík: Ólafur Ólafsson 23/12 fráköst, Rodney Alexander 18/12 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 18/4 fráköst, Þorsteinn Finnbogason 6, Hilmir Kristjánsson 4, Daníel Guðni Guðmundsson 3, Björn Steinar Brynjólfsson 2.
Njarðvík: Dustin Salisbery 30/15 fráköst, Logi Gunnarsson 15/7 stoðsendingar, Snorri Hrafnkelsson 14/5 fráköst, Ragnar Helgi Friðriksson 10, Mirko Stefán Virijevic 6/10 fráköst, Ágúst Orrason 5, Hjörtur Hrafn Einarsson 3/6 fráköst, Ólafur Aron Ingvason 2.
Hinn ungi Ragnar Helgi Friðriksson lék vel hjá Njarðvíkingum.
Rodney Alexander skoraði 18 stig í sínum fyrsta leik.